Ferrariliðið hafnar þeim ásökunum McLaren að það hafi unnið ástralska kappaksturinn á ólöglegum bíl. Segist liðið munu útskýra afstöðu sína til þess að fullu fyrir áfrýjunardómstól alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA).
Ron Dennis, liðsstjóri McLaren, skrifaði ítalska akstursíþróttasambandinu fyrr í vikunni og útskýrir þar afstöðu liðsins í njósnamálinu svonefnda.
Meðal annars segir Dennis að fyrrverandi vélfræðingur Ferrari, Nigel Stepney, hafi bent starfsmönnum McLaren á við upphaf vertíðar, að Ferrari væri með ólöglegan bílbotn undir keppnisbíl sínum.
„Hvað okkur varðar notaði Ferrari bíla sína með þessum ólöglega búnaði í Ástralíukappakstrinum, sem liðið vann,“ skrifaði Dennis.
„Í þágu íþróttarinnar kaus McLaren að kæra ekki úrslit kappakstursins jafnvel þótt ljóst virðist að Ferrari hafi haft ólöglegt forskot,“ bætir Dennis við.
Í yfirlýsingu af þessu tilefni í dag leggur Ferrari þunga áherslu á, að bílarnir báðir hafi verið samþykktir til keppni í tækniskoðun fulltrúa FIA fyrir, meðan á honum stóð og eftir Ástralíukappaksturinn.
Ferrari segir ásakanir McLaren bæði „alvarlegar og rangar“ og bætir við: „Þvert á staðhæfingar McLaren hefur Ferrari aldrei öðlast neitt forskot. Báðir F2007-bílarnir í Ástralíukappakstrinum uppfylltu tæknireglur að mati eftirlitsmanna fyrir, meðan á og við lok kappakstursins. Hafi eitthvað verið ólöglegt hefðu þeir verið dæmdir úr.
Staðreyndin er sú, að það sem FIA gerði í framhaldinu er algengt að eigi sér stað. Sambandið notaði tækifærið til að gefa út hvernig túlka bæri regluna og bað liðin sem málið varðaði að gera viðeigandi breytingar.
Um slíkt er fjöldi dæma bæði nýverið og lengra aftur í tímann og þar hafa önnur lið átt hlut að máli einnig,“ segir í yfirlýsingu Ferrari.