Alonso sviptur ráspólnum í Búdapest

Fernando Alonso og Lewis Hamilton í Budapest í dag.
Fernando Alonso og Lewis Hamilton í Budapest í dag.

Eftirlitsmenn Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA) ákváðu í kvöld að færa spænska heimsmeistarann í formúlu-1 kappakstri, Fernando Alonso, aftur um fimm sæti þegar ræst verður í kappakstrinum í Búdapest í Ungverjalandi á morgun. Lewis Hamilton, liðsfélagi Alonsos í McLaren-Mercedes liðinu, ræsir þess í stað fremstur en Alonso ræsir í 6. sæti.

Þá ákvað FIA, að McLaren-Mercedes fái engin stig fyrir kappaksturinn á morgun í stigakeppni bílasmiða til heimsmeistaratitils.

FIA komst að þeirri niðurstöðu, að Alonso og liðsmenn hans í McLaren liðinu hefðu komið í veg fyrir að Hamilton gæti ekið síðasta hringinn í tímatökunni í dag en Hamilton þurfti að bíða í 20 sekúndur á þjónustusvæði eftir að Alonso æki af stað.

Samkvæmt þessum úrskurði mun Hamilton ræsa fremstur. Nick Heidfeld á BMW Sauber, ræsir í 2. sæti, Kimi Räikkönen á Ferrari þriðji, Nico Rosberg á Williams-Toyota, fjórði, Ralf Schumacher á Toyota fimmti og Alonso sjötti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert