Lewis Hamilton á McLaren var í þessu að vinna sigur í ungverska kappakstrinum. Jók hann forskot sitt í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra þar sem liðsfélagi hans Fernando Alonso varð fjórði. Seinni helming kappakstursins stóðst Hamilton mikla pressu af hálfu Kimi Räikkönen á Ferrari sem varð annar.
Sömuleiðis varðist Nick Heidfeld á BMW fimlega er Fernando Alonso dró hann uppi undir lokin. Lét Heidfeld þriðja sætið ekki af hendi en þetta er önnur ferð hans á verðlaunapall á árinu.
Alonso varð að hefja keppni í sjötta sæti refsingar. Féll hann svo niður um tvö við fyrstu beygju eftir ræsingu en vann sig jafnt og þétt fram á við.
Räikkönen komst aldrei nógu nálægt Hamilton til að leggja til atlögu við hann og hið sama er að segja um Alonso og Heidfeld. Bilið var minnst um 0,5 sekúndur í báðum tilvikum en þarf að komast niður í tvö til þrjú brot, 0,2-0,3 sekúndur, til að það eigi að vera gerlegt.
Felipe Massa hjá Ferrari átti erfitt uppdráttar og hafnaði í 13. sæti eftir keppni við Takuma Sato á Super Aguri sem tók fram úr honum á fyrsta hring og hélt Massa fyrir aftan sig næstu fimmtíu hringina.
Verðlaunaafhending var óvenjuleg sakir þess að þar var engin liðsfulltrúi til að taka á móti verðlaunum bílsmiða. Þau hefðu fallið McLaren í skaut hefðu eftirlitsmenn kappakstursins ekki ákveðið í gær að liðið skyldi engin stig hljóta vegna atvika í tímatökunum í gær.
Ökuþórar liðsins halda þó sínum stigum í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Jók Hamilton forystu sína úr tveimur stigum í sjö þar sem hann fékk 10 stig Alonso aðeins fimm fyrir fjórða sætið. Hefur Hamilton hlotið 80 stig en Alonso 63.
Räikkönen komst að nýju upp fyrir Massa í keppni ökuþóra og er í þriðja sæti með 60 stig gegn 59 stigum Massa sem fór tómhentur frá Búdapest.
Miðað við það sem á hefur gengið í Búdapest um helgina var kappaksturinn frekar tíðindalaus.
Sigurvegarar mótsins í fyrra, Hondaliðið, fara ekki með glans frá því nú. Jenson Button féll úr leik vegna vélarbilunar og Rubens Barrichello lauk keppni síðastur.
Nýliðarnir tveir áttu ólíku gengi að fagna. Sebastian Vettel varð sextándo á Toro Rosso en Sakon Yamamoto flaug út úr beygju og hafnaði á öryggisvegg eftir sex hringi.