Að sögn ítalskra fjölmiðla er það ekki aðeins Fernando Alonso sem önnur lið sýna athygli þessa dagana vegna ástandsins innan McLarenliðsins. Blaðið Tuttosport segir Ferraristjórann Jean Todt áfram um að tæla Lewis Hamilton til sín.
Blaðið segir að Todt lofi Hamilton samningi upp á 35 milljónir dollara á ári, komi þessi skjólstæðingur Ron Dennis til Ferrari. Tuttosport bætir því við að Hamilton gæti orðið „alvöru arftaki“ Michaels Schumacher, þar sem „hvorki Massa né Räikkönen“ hafi sýnt hæfileika á borð við meistarann fyrrverandi.
Hamilton „er hæfileikum prýddur, einbeittur, hraðskreiður, sigursæll og hungraður,“ skrifar Tuttosport. Sjálfur segir Todt að hér sé fyrst og fremst um „vangaveltur“ að ræða en ekki sannindi.