Heimsmeistarinn Fernando Alonso gengur til tyrkneska kappakstursins á morgun með því hugarfari að hann geti farið með sigur af hólmi. Hann segist hafa trú á því þrátt fyrir að hafa orðið í fjórða sæti í tímatökunum í dag.
„Það er alltaf betra að starta fremst, á undan öllum ef hægt er, ekki bara liðsfélaga mínum," sagði Alonso eftir tímatökurnar. „Það er rétt, ég þarf að vinna upp sjö stiga mun og það er ekki það ákjósanlegasta að leggja af stað á eftir. En stigin koma til skiptana á morgun og vonandi verð ég á undan öllum þá.
Það er ekki útilokað að vinna með því að ræsa í fjórða sæti, það ræðst allt af keppnishraða bílanna. Enginn veit hver verður sterkastur því menn óku að hámarki átta eða níu hringi á æfingunum í gær. Hver veit því hvað gerist á 20 hringjum.
Ég hef mikla trú á herfræðinni og hraða í langakstri og mun reyna að endurheimta eitthvað af hraðanum á morgun,“ sagði Alonso hinn bjartsýnasti.
Ólíkt helstu keppinautunum hefur hann keppni á harðari dekkjagerðinni á morgun en hann telur þau ekki hafa háð sér í lokalotu tímatökunnar. Þá vonar hann að það skemmi ekki fyrir þótt hann leggi af stað á óhreinni helmingi brautarinnar.