Fernando Alonso neitar því að hann íhugi að taka sér frí og keppa ekki í formúlu-1 á næsta ári. Vegna óánægju hans hjá McLaren undanfarið hefur það verið talinn valkostur sem hann stæði frammi fyrir.
Í samtali við spænska blaðið Diario As eftir kappaksturinn í Istanbúl um nýliðna helgi vísar hann því á bug að hann geti ekki hugsað sér að keppa annað ár við hlið Lewis Hamilton hjá McLaren.
"Það er öruggt að ég keppi í formúlu-1 á næsta ári. Ég er alls ekki að íhuga það að sitja hjá," segir Alonso við blaðið. Hann þykir þó svara grunsamlega varðandi keppni á næsta ári.
"Eina sem ég einbeiti mér að um þessar mundir er að vinna heimsmeistaratitilinn. Ég veit ekki hvar ég keppi 2008, allt sem ég þó veit er að ég get keppt með McLaren," segir hann.