Ítalska fréttastofan ANSA sagði í kvöld, að Ron Dennis, liðsstjóri McLaren, hefði verið birt stefna í Monza í dag, þess efnis að hann sætti rannsókn vegna njósna hjá Ferrari.
Fréttastofan sagði að saksóknarar héldu því fram að McLarenliðið hefði komist með ólögmætum hætti yfir tæknileg gögn keppinautanna hjá Ferrari.
Til stóð að stefnan yrði afhent Dennis í Monza í dag, en sjálfur sagðist hann síðdegis ekki kannast við neina stefnu eða bréf frá saksóknara í Modena, heimabæ Ferrari.
Fréttastofan sagði alls sjö einstaklinga myndu sæta rannsókn vegna njósnamálsins, þar á meðal fyrrverandi hönnuður McLaren, Mike Coughlan, og einn helsti tæknimaður Ferrari um árabil, Nigel Stepney.