Hamilton: njósnamálið gæti slökkt vonir um titil

Hamilton fagnar tvöföldum sigri McLaren á verðlaunapallinum í Monza.
Hamilton fagnar tvöföldum sigri McLaren á verðlaunapallinum í Monza. ap

Njósnamál formúlunnar er farið að valda Lewis Hamilton hjá McLaren hugarangri. Eftir kappaksturinn í Monza sagði hann að málið gæti að engu gert vonir hans um heimsmeistaratitil ökuþóra á jómfrúarári sínu í formúlu-1.

Njósnamálið verður tekið upp á fundi íþróttaráðs Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í París á fimmtudaginn kemur. Ráðið úrskurðaði í lok júlí, að McLaren væri sekt í málinu á þeirri forsendu að það bæri ábyrgð á starfsmanni sínum, hönnuðinum Mike Coughlan, sem reyndist með trúnaðargögn frá Ferrari á heimili sínu.

Ráðið féllst á skýringar McLaren um að gögnin hefðu aldrei í hús liðsins komið né verið notuð við þróun silfurörvanna. Er upp komst um Coughlan var honum samstundis vikið úr starfi.

Þykir ráðinu hins vegar sannað á fimmtudag, á grundvelli nýrra upplýsinga, að liðið hafi haft gagn af gögnum gæti McLaren orðið að sæta refsingu. Í versta falli vísað úr keppni í ár og á næsta ári.

„Velti maður málinu fyrir sér gæti allt það sem bæði ég og liðið höfum unnið að verið hrifsað af okkur. Vá, maður gæti verið atvinnulaus um næstu helgi og hvað tekur þá við?“ sagði Hamilton við bresku sjónvarpsstöðina ITV eftir kappaksturinn.

„Það lék allt við okkur og þá kemur allt í einu þessi rýtingsstunga,“ bætti hinn 22 ára gamli Hamilton við. Eftir mótið í Monza er hann með þriggja stiga forystu á liðsfélaga sinn Fernando Alonso í keppninni um titil ökuþóra.

Þótt McLaren legði Ferrari að velli í Monza og ætti báða bílana á mark þar í fyrstu tveimur sætum í fyrsta sinn í sögunni þá grúfði njósnamálið eins og mara yfir Monza um helgina.

Njósnamálið reynir mjög á ást Hamiltons á formúlunni

Hamilton segist hafa fulla trú á sakleysi liðsins en segir njósnamálið hafa reynt mjög á ást sína á íþróttinni.

„Ég hafði aldrei getað ímyndað mér að ég ætti eftir að sitja hér og segjast hata eitthvað við formúlu-1. En pólitíkin og fólkið sem vill upphefja sig á kostnað annarra er með ólíkindum.

Við ykkur vil ég segja, að Ron [Dennis liðsstjóri] hefur alltaf verið mér afar hliðhollur, hann er mikilmenni í mínum huga og ég hef aldrei haft einustu ástæðu til að trúa honum ekki.

Hann á við það að stríða um þessar mundir að einstakir aðilar vilja knésetja hann. Því er rétt af minni hálfu að styðja hann,“ sagði Hamilton.

Hann sagði að það myndi vera sér gríðarlega þýðingarmikið að vinna titil ökuþóra. „Það yrði frábært fyrir okkur að vinna titil bílsmiða og titil ökuþóra, þó ekki væri nema til að sýna, að þrátt fyrir öll ágreiningsmálin fær ekkert knésett okkur eða stöðvað.“

Hamilton hellir sigurveig yfir liðsfélaga sinn Alonso í Monza.
Hamilton hellir sigurveig yfir liðsfélaga sinn Alonso í Monza. ap
Alonso og Hamilton fyrstir á mark í Monza. Í fyrsta …
Alonso og Hamilton fyrstir á mark í Monza. Í fyrsta sinn í sögunni átti McLaren tvo fyrstu bíla í mark á heimavelli Ferrari. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert