Ítalskur blaðamaður, Pino Allievi, hefur viðurkennt að hafa falsað og frumsamið fréttina um innihald rafpósta milli ökuþóra McLaren sem eru hluti „nýrra gagna“ í njósnamáli Ferrari á hendur McLarenliðinu.
Allievi skrifaði sl. föstudag frétt í blað sitt, ítalska íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport, þar sem hann greindi frá tölvupósti sem tilraunaökuþór McLaren, Pedro de la Rosa, er sagður hafa sent Fernando Alonso fyrir upphaf keppnistíðarinnar.
Allievi viðurkennir í samtali við fréttastofuna AP að hann hafi kryddað frétt sína með ætluðum orðaskiptum ökuþóranna til að gera tilvist tölvupóstsins „trúverðugari“.
Málið tók enn nýja stefnu í Monzabrautinni um helgina og vakti „frétt“ La Gazzetta dello Sport um rafpóstana mikla athygli.
„Ég túlkaði það frjálslega hvað kynni að standa í tölvupóstinum,“ sagði Allevi við AP í dag.
Í frásögn hans í La Gazzetta dello Sport eru eftirfarandi orðaskipti sögð hafa átt sér stað milli Pedro de la Rosa og Fernando Alonso:
„Veistu, ég hef komist að því hvernig Ferrari fer að því að fá dekkin til að virka fullkomlega?“ sagði de la Rosa.
Og bætir við: „Nigel Stepney sagði Mike Coughlan frá því.“
„Ég trú því ekki,“ svaraði Alonso.
Pino Allievi reynir að bera hönd fyrir höfuð sér með því að segja að lesa hefði mátt úr grein hans að um ímyndaðar samræður hafi verið að ræða.
Allievi hefur í áratugi fylgst með og fjallað um formúlu-1 fyrir blað sitt, og er m.a. höfundur fjölda bóka um kappakstur.