Felipe Massa hjá Ferrari sagði eftir ítalska kappaksturinn í Monza að vonir hans um að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra í ár hafi líklega þorrið er hann varð að hætta keppni vegna bilunar í fjöðrunrabúnaði eftir 10 hringi.
Féll Massa niður í fjórða sæti í titilkeppninni og er 23 stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren þegar fjögur mót eru eftir. Heimsmeistarinn Fernando Alonso fór fyrir ökumönnum McLaren sem unnu tvöfaldan sigur í Monza og er Alonso þremur stigum á eftir Hamilton í titilkeppninni.
„Ómögulegt, nei, en vissulega ekki auðvelt,“ sagði Massa við blaðamenn spurðu hann hvort ekki væri útséð með að hann ynni titil ökuþóra. „Ég mun bera höfuðið hátt og vera samkeppnisfær. Ég er sannfærður um að við getum keppt til sigurs í mótum sem eftir eru,“ bætti hann við.
Massa hóf keppni þriðji en kom til dekkjaskipta í lok níunda hrings þar sem hann óttaðist að dekk væri sprungið. Það breytti engu því hann sneri aftur til bílskúranna hring seinna og kom í ljós að um bilun í afturfjöðrun var að ræða.
„Það er hörmung að glíma við vandamál í byrjun kappaksturs en maður getur ekkert að gert. Niðurstaða sem þessi er slæm þegar verðlaunapallurinn er í augsýn. Það er mikilvægt að komast út úr svona vandamálum, við verðum að leggja harðar að okkur,“ sagði Massa.
Við brottfall hans á heimavelli í Monza minnkuðu möguleikar Ferrari á titli bílsmiða enn frekar þar sem Alonso og Hamilton urðu báðir á undan Kimi Räikkönen sem varð þriðji.
McLaren er með 23 stiga forskot, 166:143, ef stigin 15 frá ungverska kappakstrinum eru ekki reiknuð með, en eftir er að úrskurða hvort liðið endurheimti þau eður ei.