Nýtt njósnamál innan formúlu-1 kann að vera í uppsiglingu því McLaren hefur lagt fram sönnunargögn sem hugsanlega eiga eftir að Renaultliðið þurfi að svara til saka fyrir njósnir.
Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) staðfesti í vikunni, að McLaren hefði snúið sér til sambandsins með ákveðin atriði vegna Renault. Talið var að þau gætu dregið liðið inn í núverandi njósnamál eða orðið kveikjan að nýju.
Að sögn svissneska blaðsins Blick er líklega nýtt njósnamál í uppsiglingu vegna vélfræðings sem réði sig til Renault frá McLaren. Segir blaðið að hann hafi tekið með sér þrjá tölvudiska. Afleiðing sé sú að kælikerfi Renaultbílsins og rafeindabúnaður sé svo gott sem hinn sami og í bílum McLaren.
Fulltrúi formúluvefjar mbl.is var viðstaddur er Heikki Kovalainen ræddi við blaðamenn fyrir stundu við mótorheimili Renault að tjaldabaki í Spa þar sem belgíski kappaksturinn fer fram um helgina. Að vonum vildi hann ekkert tjá sig um þessi mál.