Dennis: "Refsingin óverðskulduð"

Ron Dennis, liðsstjóri McLarenliðsins, segir refsinguna sem íþróttaráð Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) gerði í París í gær, sé óverðskulduð. "Framburður ökuþóra okkar, tæknimanna og annarra starfsmanna sýnir svart á hvítu að við notuðum ekki lekin gögn til að ná frumkvæði í keppni," sagði Dennis á blaðamannafundi.

"Í fjölmiðlum og við vitnaleiðslurnar í dag hefur mikið verið gert úr rafpósti til og frá ökuþórum okkar. Fyrir íþróttaráðið voru lagðar yfirlýsingar frá Fernando Alonso, Lewis Hamilton og Pedro de la Rosa þar sem því er neitað lið fyrir lið að einhver gögn frá Ferrari hafi verið notuð af hálfu McLaren og þeir hafi ekki komið neinum trúnaðargögnum á framfæri við liðið.

Allt verkfræði- og tæknilið okkar, yfir 140 manns, staðfesti það við FIA að þeir hefðu aldrei tekið við eða nýtt sér Ferrarigögn.

Við höfum aldrei borið á móti því að gögn frá Ferrari voru í fórum eins starfsmanna okkar á heimili hans. Kjarni málsins er hvort McLaren hafi nota þessi gögn? Svo er ekki og annað hefur ekki verið sannað í dag.

Við erum stanslaust spurðir að því hver hafi verið ástæða þess að [Nigel] Stepney [tæknimaður Ferrari] og [Mike] Coughlan [brottrekinn hönnuður McLaren] viðað að sér gögnum um Ferrari fyrst við notuðum þau ekki?

Um það getum við aðeins verið með getgátur þar sem hvorki Coughlan né Stepney báru vitni í dag, en við vitum, að báðir leituðu starfa hjá öðrum liðum, eins og staðfest hefur verið bæði af hálfu Honda og Toyota.

Það verða engin eftirmál vegna 2008 þar sem við höfum á engu stigi notað höfundargögn nokkurs liðs.

Mikilvægast er að við munum þreyja kappakstur um helgina, það sem eftir er vertíðar og allar vertíðir. Það þýðir að ökuþórar okkar geta áfram keppt um heimsmeistaratitilinn. Við erum með bestu ökuþórana og besta bílinn og hugur okkar stendur til að vinna titilinn," sagði Dennis.

Ron Dennis ræðir við blaðamenn eftir úrskurð FIA í París.
Ron Dennis ræðir við blaðamenn eftir úrskurð FIA í París. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert