Ron Dennis ljóstraði sjálfur upp um rafpósta

Dennis mætir til leiks í Spa í dag.
Dennis mætir til leiks í Spa í dag. ap

Vöngum hefur mjög verið velt yfir því hver kom því á framfæri við Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA), að ökuþórar McLaren hefðu gögn er gætu orðið til þess að njósnamál formúlunnar yrði tekið upp.

Staðhæft er í blaðamannamiðstöðinni hér í Spa-Francorchamps í Belgíu að það hafi verið sjálfur liðsstjóri McLaren, Ron Dennis.

Hermt er, að Dennis og Fernando Alonso hafi nýlega deilt um túlkun samnings ökuþórsins við McLaren. Alonso muni þá hafa nefnt að hann hefði undir höndum upplýsingar er FIA kynni að hafa áhuga á.

Dennis er hins vegar sagður ekki hafa kært sig um að Alonso yrði fyrri til að "flauta" og farið sjálfur strax til FIA og sagt sambandinu af tölvusamskiptum Alonso og Pedro de la Rosa varðandi upplýsingar um keppnisbíla Ferrari.

Með því hafi hann viljað undirstrika að lið hans hafi sýnt fullan heiðarleika við rannsókn njósnamálsins. Annar tilgangur hans var að svipta Alonso þessu samningsvopni sem hann er sagður hafa veifað.

Engin staðfesting hefur fengist á þessum stranga orðrómi. FIA hefur heldur ekki staðfest hvernig það fékk upplýsingar um nýju gögnin sem urðu til þess að njósnamálið var tekið upp í gær. Búast má við að það komi þó fram, þegar fullt afrit af vitnaleiðslunum gærdagsins verður birt í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka