Ökuþórar Ferrari unnu fyrstu tvö sætin á rásmarki í tímatökum belgíska kappakstursins í gær, en hér í Spa velta blaðamenn því fyrir sér hvort bílarnir endist kappaksturinn því báðir áttu við vandamál í afturenda bílsins að stríða.
Dempari í bíl Felipe Massa bilaði í ítalska kappakstrinum í Spa fyrir viku með þeim afleiðingum að hann varð að hætta keppni á fyrstu hringjum. Á æfingu daginn áður snarsnerist bíll Kimi Räikkönen á brautinni og Massa sagði á blaðamannafundi í fjölmiðlamiðstöðinni hér í Spa á fimmtudag, að verið gæti að þar hafi dempari komið við sögu.
Af hálfu Ferrari hefur það ekki verið staðfest, og liðið sagði Räikkönen einfaldlega hafa misst stjórn á bílnum á þúfu í malbikinu.
Massa sagði að þessir demparar, sem nú væru í fjöðrunarkerfi Ferraribílanna, hefðu ekki verið í bílunum í fyrsta sinn í Monza, heldur verið notaðir vandræðalaust áður.
Athygli vakti að Massa komst ekki af stað í fyrstu lotu tímatökunnar hér fyrr en nokkrar mínútur voru eftir, en þá höfðu vélvirkjar liðsins unnið ákaft í afturenda bílsins.
Räikkönen sagði hins vegar á blaðamannafundinum eftir tímatökurnar, að bíll hans hafi verið "skrítinn" aftan til, verið eitthvað "mjúkur", eins og hann komst að orði. Það hefði þó ekki komið að sök á löngum köflum brautarinnar.
"Eftir fyrstu aksturslotu í síðustu umferð tímatökunnar var bíllinn ekki lengur eins og átti að vera. Ég held eitthvað sé þar á seyði því afturendinn virkaði of mjúkur. Vonandi finnum við hvað þetta er og getum ráðið bót á því," sagði Räikkönen.