Blöðin berja á Alonso

Það fór vel á með Räikkönen og Alonso á verðlaunapallinum …
Það fór vel á með Räikkönen og Alonso á verðlaunapallinum í Spa. ap

Fernando Alonso fékk á baukinn í þýskum og breskum fjölmiðlum eftir kappaksturinn í spa-Francorchamps í Belgíu um helgina. Þar minnkaði hann forskot Lewis Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í tvö stig.

„Lygari, kúgari og á hann að fá heimsmeistaratitil í verðlaun?“ spyr útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, og skírskotar þar með til aðildar Alonso að njósnahneyksli formúlunnar.

Breska götublaðið The Sun fjallaði um stöðubardaga þeirra liðsfélaganna, Alonso og Lewis, í og út úr fyrstu beygjunni í byrjun kappakstursins í Spa. „Taktík Alonso afleit“ sagði í fyrirsögn blaðsins.

Annað götublað, Daily Mirror, skýrir frá því að Alonso hafi fyrir mótið í Spa boðið vélvirkjum sínum, 15 talsins, 1.000 evru hvatningarbónus hverjum og einum fyrir hvert mót sem hann sigrast á Lewis héðan í frá.

Blaðið segir reyndar að liðsstjórinn Ron Dennis hafi bannað það strax þar sem það gæti valdið misklíð innan liðsins.

Ítalskir fjölmiðlar beindu athygli sinni að yfirmönnum Alonso hjá McLaren í gær. „Ferrari sigrar svikaraliðið“ sagði blaðið Tuttosport um sigur Kimi Räikkönen í Spa en næstur honum varð liðsfélagi hans Felipe Massa.

Og bætti við: „[Ferrari] sannaði að það er með besta bílinn og besta mannskapinn.“

Íþróttastjóri Mercedes-Benz, Norbert Haug, brást við stóryrðum Bild með því að gera minna úr því að Ferrariliðið væri stærðfræðilega séð orðnir heimsmeistarar bílsmiða eftir keppnina í Spa.

„Titill sem vinnst með þessum hætti er lítils virði. Í mínum huga eru einu titlarnir sem mark er takandi á þeir sem vinnast á kappakstursbrautinni,“ sagði Haug, en lið hans McLaren var í síðustu viku dæmt úr úr leik í stigakeppni bílsmiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert