Hamilton hreppti ráspólinn þegar engir gátu svarað

Hamilton (t.v.) og Alonso fagna tvöföldum McLarensigri í tímatökunum í …
Hamilton (t.v.) og Alonso fagna tvöföldum McLarensigri í tímatökunum í Fuji. ap

Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna ráspól japanska kappakstursins í Fuji. Fagnaði hann innilega en hann skaust úr fjórða sæti í það fyrsta á síðustu sekúndu tímatökunnar og var orðið um seinann fyrir keppi nauta hans að svara. Liðsfélagi hans Fernando Alonso varð annar.

Alonso hafði setið í efsta sæti alla þriðju tímatökulotuna en Hamilton fór ólíkt að og skipti um dekk öðru sinni er aðeins um tvær mínútur voru eftir. Komst því síðastur inn á tímahring áður en flaggið féll og við batnandi aðstæður vann hann sig fram úr Ferrariþórunum og Alonso á lokahringnum, var 70 þúsundustu úr sekúndu skemur með hringinn en heimsmeistarinn.

Hamilton lenti í vandræðum í fyrstu tímalotunni og var í 18. sæti þegar hann hafði aðeins eitt tækifæri til að bæta sig. Komst hann upp í fjórða sæti. Felipe Massa á Ferrari ók þá hraðast og Alonso varð annar. Hamilton setti svo besta tímann í annarri lotu, var 53 þúsundustu úr sekúndu á undan Alonso.

Er þetta í fimmta sinn á árinu sem ökuþórar McLaren hefja keppni á fremstu ráslínu í ár. Hamilton fagnaði ráspólnum gríðarlega í bíl sínum á innhringnum, enda gæti hann átt eftir að reynast mikilvægur vegna tvísýnnrar keppni þeirra Alonso um titil ökuþóra.

Ennfremur var honum eflaust mjög létt þó ekki væri nema fyrir það að komast fram úr báðum Ferrariþórunum sem voru á milli þeirra Alonso. Rúsínan í pylsuendann fyrir hann var þó að vinna sjálfan pólinn af Alonso sem er sálfræðilega mikilvægt í rimmu þeirra um titilinn.

Tímatökurnar fóru fram í rigningu og hafði skýjum létt það mikið að ekki kom til þess að fresta yrði þeim til fyrramáls. Æfingu fyrr í morgun varð hins vegar að aflýsa vegna aðstæðna þar sem ekki var hægt að senda sjúkraþyrlu á loft.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari varð þriðji og liðsfélagi hans Felipe Massa fjórði. Höfðu þeir ekki roð við silfurörvum McLaren í lokalotunni.

Nico Rosberg hjá Williams átti góðan dag og varð sjötti. Vegna mótorskipta færist hann hins vegar aftur um 10 sæti á rásmarkinu. Fyrir vikið hefur Jenson Button hjá Honda keppni af sjötta rásstað. Hann náði besta árangri sínum í tímatökum í ár með sjöunda sæti og sannaði enn annálaða færni sína í rigningarakstri.

Vettel maður dagsins og Toro Rosso í fyrsta sinn meðal 10 fremstu

Sebastian Vettel hjá Toro Rosso var um margt maður dagsins, því við erfiðar aðstæður komst nýliðinn sá alla leið í þriðju lotu. Er það í fyrsta sinn í sögu Toro Rosso að bíll liðsins kemst svo langt í tímatökum. Hann varð sjöundi í fyrstu lotu og síðan níundi í þeirri þriðju og hefur keppni í áttunda sæti vegna afturfærslu Rosberg.

Renaultbílarnir áttu erfitt uppdráttar í bleytunni og þrátt fyrir batnandi tíma alla aðra lotuna urðu Giancarlo Fisichella og Heikki Kovalainen í aðeins 11. og 12. sæti.

Jarno Trulli hjá Toyota jafnaði sinn lélegasta árangur á árinu með 14. sæti en hann hefur komist í hóp 10 fremstu undanfarin níu mót. Liðsfélagi hans Ralf Schumacher átti afleitan dag. Setti tíma sem dugði í aðra lotu en gat þá ekkert ekið þar sem hann ók á Sakon Yamamoto á Spyker og skemmdi framvæng og fjöðrunarbúnað það mikið að ekki vannst tími til að gera við hann.

Í sjötta sinn á vertíðinni féllu Rubens Barrichello hjá Honda og Alexander Wurz hjá Williams úr leik í fyrstu lotu.

Niðurstaða tímatökunnar varð annars sem hér segir:

Tímatökurnar í Fuji Lota 1 Lota 2 Lota 3
Röð Ökuþór Bíll Röð Tími Hri. Röð Tími Hri. Röð Tími Hri.
1. Hamilton McLaren 4. 1:25.489 10 1. 1:24.753 9 1. 1:25.368 11
2. Alonso McLaren 2. 1:25.379 6 2. 1:24.806 10 2. 1:25.438 11
3. Räikkönen Ferrari 3. 1:25.390 10 3. 1:24.988 8 3. 1:25.516 11
4. Massa Ferrari 1. 1:25.359 8 4. 1:25.049 10 4. 1:25.765 11
5. Heidfeld BMW 6. 1:25.971 10 5. 1:25.248 9 5. 1:26.505 11
6. Rosberg Williams 9. 1:26.579 11 9. 1:25.816 11 6. 1:26.728 11
7. Button Honda 10. 1:26.614 10 6. 1:25.454 10 7. 1:26.913 11
8. Webber Red Bull 5. 1:25.970 10 8. 1:25.535 8 8. 1:26.914 11
9. Vettel Toro Rosso 7. 1:26.025 11 10. 1:25.909 11 9. 1:26.973 11
10. Kubica BMW 8. 1:26.300 11 7. 1:25.530 11 10. 1:27.225 11
11. Fisichella Renault 13. 1:26.909 7 11. 1:26.033 10
12. Kovalainen Renault 15. 1:27.223 7 12. 1:26.232 10
13. Coulthard Red Bull 12. 1:26.904 11 13. 1:26.247 10
14. Trulli Toyota 11. 1:26.711 11 14. 1:26.253 10
15. Liuzzi Toro Rosso 16. 1:27.234 11 15. 1:26.948 11
16. R.Schumacher Toyota 14. 1:27.191 10 16. 0
17. Barrichello Honda 17. 1:27.323 10
18. Wurz Williams 18. 1:27.454 10
19. Davidson Super Aguri 19. 1:27.564 10
20. Sutil Spyker 20. 1:28.628 10
21. Sato Super Aguri 21. 1:28.792 10
22. Yamamoto Spyker 22. 1:29.668 10
Aðstæður voru erfiðar í Fuji, hér yfirgefa áhorfendur stúkur er …
Aðstæður voru erfiðar í Fuji, hér yfirgefa áhorfendur stúkur er æfingu dagsins var aflýst. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert