Haug hefur litla samúð með Ferrari

Norbert Haug í samtali við Florian König (t.h.) og Niki …
Norbert Haug í samtali við Florian König (t.h.) og Niki Lauda (t.v.), sjónvarpsmenn RTL, við mótorheimili McLaren í Spa í Belgíu. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Norbert Haug, íþróttastjóri Mercedes og einn af yfirmönnum McLarenliðsins, hafði litla samúð með Ferrari vegna dekkjaskyssu liðsins í japanska kappakstrinum í Fuji.

Felipe Massa er úr leik í heimsmeistarakeppni ökuþóra eftir mótið og Kimi Räikkönen nánast líka þar sem hann er 17 stigum á eftir Lewis Hamilton hjá McLaren þegar tvö mót eru eftir.

Ferrari kvartaði undan því að hafa ekki komist að því fyrr en eftir að kappaksturinn var hafinn að fulltrúar Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), eftirlitsmenn kappakstursins, hefðu vegna aðstæðna í Fuji bannað liðunum að hefja keppni öðru vísi en á fullum regndekkjum.

„Skilaboðin bárust hinum liðunum tíu,“ sagði Haug við þýska sjónvarpsstöð. Hann þótti gefa lítið fyrir afsökun Ferrari eða yfirsjón og skírskota til njósnamálsins sem kostaði McLaren ma. 100 milljóna dollara sekt er hann sagði: „Það hefur verið refsað fyrir miklu veikari sannanir.

Ferrari reynir alltaf að undanskjóta sjálft sig ábyrgð þegar liðið tapar. Það eru ekki ný sannindi,“ sagði Haug við RTL-stöðina.

Hann vildi ekki geta sér til um hvers vegna tölvupóstur eftirlitsmanna FIA með dekkjafyrirmælunum birtist næstum 90 mínútum seinna í tölvu íþróttastjóra Ferrari, Stefano Domenicali, en í tölvum annarra liða. „Ég er ekki talsmaður Ferrari - ég hef ekki hugmynd um hvað þeir voru að gera í hádeginu,“ sagði Haug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert