Lewis Hamilton stendur í þakkarskuld við Ferrari vinni hann heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1 í Kínakappakstrinum í Sjanghæ um komandi helgi, segir Luca di Montezemolo, forstjóri Fiat og Ferrari.
„Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið stór mistök að dæma ekki ökuþóra McLaren úr leik einnig í njósnamálinu. Verði Hamilton meistari þá getur hann þakkað það Ferrari því það er heilmikið af Ferrari í bílnum hans,“ segir Montezemolo í samtali við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport í dag.
McLaren var sektað um 100 milljónir dollara og vísað úr keppni bílsmiða fyrir að hafa í fórum sínum tæknigögn frá Ferrari. Ökumönnunum var ekki refsað enda hafði þeim verið heitið griðum létu þeir af hendi upplýsingar sem þeir kynnu að búa yfir og vörðuðu málið.
Hamilton, sem er 22 ára, getur á sunnudaginn orðið fyrsti nýliðinn frá upphafsári formúlunnar, eða í 57 ár, til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra. Eftir sigur í japanska kappakstrinum í fyrradag hefur hann 12 stiga forskot á liðsfélaga sinn Fernando Alonso, meistara tveggja síðustu ára, sem féll úr leik í Fuji.