Fernando Alonso tekur undir gagnrýni annarra ökuþóra á framferði liðsfélaga hans Lewis Hamilton meðan öryggisbíll var í brautinni í fuji síðastliðinn sunnudag. Málið er til rannsóknar en Hamilton þykir ekki hafa farið rétt að og er jafnvel kennt um árekstur milli bíla næst á eftir honum.
Mark Webber á Red Bull og Sebastian Vettel hjá Toro Rosso hafa báðir sagt Hamilton hafa skapað hættu með akstri sínum í Fuji. Og Webber kennir Hamilton fortakslaust um að Vettel keyrði aftan á Red Bull bílinn er Hamilton snarhæfði ferðina eitt sinn.
Fleiri ökuþórar og fulltrúar keppnisliða hafa gagnrýnt Hamilton vegna þessa og Alonso bættist í hópinn í gær, en hann ók næst á eftir Hamilton meðan öryggisbíllinn var í brautinni fyrstu 19 hringi kappakstursins í Fuji.
„Ég lenti einnig fram úr Lewis tvisvar eða þrisvar sinnum, það virðist því sem við séum allir sammála. Það er erfitt að átta sig á því hvað bíllinn á undan þarf að gera.
Ég sá ekki kappaksturinn í sjónvarpi en að hlusta á ummæli ökumanna virðast þeir hafa runnið fram úr bílnum á undan nokkrum sinnum og þurft að grípa til óþarfa ráðstafana til að komast hjá því að skella á næsta bíl á undan,“ sagði Alonso spurður um framferði Hamiltons á blaðamannafundi í Sjanghæ í dag.