Verður myndband af YouTube Hamilton til falls?

Hamilton í Fuji.
Hamilton í Fuji. ap

Framferði Lewis Hamiltons hjá McLaren fyrir aftan öryggisbílinn í japanska kappakstrinum sætir nú sérstakri rannsókn fulltrúa Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA). Er til athugunar hvort hann hafi m.a. verið valdur að árekstri sem felldi Mark Webber og Sebastian Vettel úr leik.

Ökuþórar kvörtuðu undan framferði Hamiltons eftir kappaksturinn í Kína. Staðhæft var að hann hafi nokkrum sinnum bremsað snögglega og tekið síðan harkalega af stað aftur.

Atvik náðust ekki á urmul sjónvarpsvéla meðfram brautinni, en FIA hefur borist ný gögn í málinu, meðal annars myndband sem birtist á vefnum „YouTube.com“ og áhorfandi tók.

Myndbandið er sagt gefa til kynna að Hamilton hafi átt sinn þátt í árekstri Webber og Vettel. Sést á því hvernig hann bremsar mjög á öðrum vegarhelmingi og neyðir Webber til að hægja ferðina en á því áttaði Vettel sig of seint, enda skyggni lélégt, og skall aftan á Webber.

Hamilton hefur verið kallaður fyrir eftirlitsmenn kínverska kappakstursins á morgun, föstudag.

Samkvæmt reglum formúlunnar vreður fremsti bíll að halda jafnri vegalengd milli sín og öryggisbílsins þar til á hringnum sem öryggisbíllinn hverfur úr brautinni. Verður hann að vera innan við fimm bíllengdum á eftir öryggisbílnum.

Vettel hefur þegar verið refsað fyrir að aka aftan á Webber með því að hann færist aftur um 10 sæti á rásmarkinu í Sjanghæ eftir tímatökurnar á laugardag.

Að sögn vefsetursins autosport.com þykir líklegt að Hamilton hljóti sömu refsingu telji þeir hann ekki hafa farið eðlilega að aftan við öryggisbílinn í Fuji.

Mark Webber sagðist þeirrar skoðunar í dag að framferði Hamiltons hafi átt sinn þátt í óhappinu. „Hann var ekki að gera það sem ætlast var til af honum og átti það tvímælalaust sinn þátt í að Sebastian ók aftan á mig,“ sagði Webber.

„Hann talaði um það á ökuþórafundinum hversu vel hann ætlaði að haga sér en það var öðru nær. Við vitum þó alla vega af þessu næst,“ bætti Webber við á blaðamannafundi í Sjanghæ í dag.

Myndband áhorfandans af aksturslagi Hamiltons á eftir öryggisbílnum í Fuji

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka