Alonso segir titlinum ráðstafað utan brautar

Alonso gefur til kynna að hann hafi hvatt heimsmeistaratitilinn.
Alonso gefur til kynna að hann hafi hvatt heimsmeistaratitilinn. ap

Fernando Alonso hjá McLaren segist þeirrar skoðunar að keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í ár hafi lokið með því að eftirlitsmenn kappakstursins í Kína ákváðu að refsa liðsfélaga hans Lewis Hamilton ekki fyrir framferði hans á eftir öryggisbílnum í Fuji um síðustu helgi. Allir keppinautar Hamiltons sem einn gagnrýndu framferði hans.

Hamilton vann keppnina um ráspólinn í Sjanghæ í morgun og þarf aðeins að vera á undan Alonso og Kimi Räikkönen hjá Ferrari á morgun til að verða heimsmeistari ökuþóra.

Staða hans væri önnur hefðu eftirlitsmenn kappakstursins refsað honum með afturfærslu á rásmarki í Kína fyrir ósæmilegt akstursframferði á eftir öryggisbílnum í Fuji.

„Ég pæli ekki í titlinum lengur, honum hefur verið ráðstafað utan brautar,“ sagði Alonso við ítölsku sjónvarpsstöðina Sky fyrir æfinguna í Sjanghæ í morgun. Annar tónn var í honum eftir tímatökurnar í opinberri tilkynningu McLarenliðsins. Þar kvaðst hann enn gera sér vonir um að hann gæti haldið titlinum þriðja árið í röð.

Ásakanir á hendur Hamilton þess efnis að framferði hans í Fuji hafi stuðlað að árekstri Sebastian Vettel hjá Toro Rosso og Mark Webber á Red Bull voru ræddar á fundi keppnisstjóra formúlunnar, Charlie Whiting, með ökuþórunum í Sjanghæ í gærkvöldi.

21 ökuþór af 22 á sömu skoðun

„Fundir með ökuþórunum þjóna engum tilgangi. Menn sitja undir boðskap Charlie Whiting og hinna fulltrúanna. Tuttugu og einn ökuþór hafði eina skoðun, Charlie og fulltrúarnir aðra, og þetta var því eins og að tala við ljósastaur.

Það er betra að sóa ekki tímanum heldur reyna að hafa gaman í keppnisbílnum,“ sagði Alonso við sjónvarpsstöðina. Hann skemmti sér á æfingunni en tímatakan var ekki saman gaman þar sem hann hafnaði í fjórða sæti, á eftir Hamilton og báðum ökuþórum Ferrari.

„Fjórða sætið er hið versta sem hugsast getur með tilliti til titilkeppninnar,“ sagði Alonso við blaðamenn eftir tímatökurnar. „Ég er nokkuð svartsýnn í ljósi niðurstöðunnar og alls þess sem gerst hefur um helgina. Ég held örlögin ætli mér ekki heppni í ár,“ bætti hann við.

Meira mótlæti en á nokkurri annarri vertíð

Alonso sagðist þó hafa trú á því að hann gæti farið með sigur af hólmi í Sjanghæ á morgun ef hann rigndi, eins og veðurhorfur benda til að muni gerast.

„Við búumst við rigningu á morgun og vitum hvað getur gerst í keppni við slíkar aðstæður. Því krosslegg ég fingurna fyrir morgundaginn og bið um rigningu og þá á ég kannski möguleika,“ sagði heimsmeistarinn.

Alonso er á sínu fyrsta ári hjá McLaren og segist hafa glímt við meira mótlæti en á nokkurri annarri keppnistíð. Hann sagði sér ætíð gremjast þegar illa gengi og því hafi hann verið gramur að loknum tímatökunum í Sjanghæ.

„Mér gremst alltaf þegar ég næ ekki góðri stöðu og næ ekki eins góðum árangri og ég ætti að geta. Það er eðlilegt,“ sagði hann.

Alonso í tímatökunum í Sjanghæ.
Alonso í tímatökunum í Sjanghæ. ap
Alonso nemur staðar á þjónustusvæði McLaren í Sjanghæ.
Alonso nemur staðar á þjónustusvæði McLaren í Sjanghæ. ap
Alonso sinnir þörfum áhugamanna um formúluna í Sjanghæ.
Alonso sinnir þörfum áhugamanna um formúluna í Sjanghæ. ap
Alonso hugsi í bílskúr McLaren í Sjanghæ.
Alonso hugsi í bílskúr McLaren í Sjanghæ. ap
Alonso einbeittur í silfurör McLaren í Sjanghæ.
Alonso einbeittur í silfurör McLaren í Sjanghæ. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert