Fernando Alonso hjá McLaren segir að möguleikar hans á að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra séu litlir þrátt fyrir úrslit kínverska kappakstursins.
Alonso sagði eftir brottfall úr japanska kappakstrinum fyrir viku að hann þyrfti á kraftaverki að halda til að vinna titilinn í ár. Vegna sigurs Lewis Hamiltin jókst bilið milli þeirra úr tveimur stigum í 12. Hamilton dugði einungis að verða á undan honum og Kimi Räikkönen hjá Ferrari í Sjanghæ í dag til að vinna titilinn.
Ekki vantaði mikið á kraftaverkið fyrir Alonso er Hamilton gerði mistök sem urðu til þess að hann féll úr leik í dag. Varð heimsmeistarinn í öðru sæti, á eftir Räikkönen, og munar nú fjórum stigum á þeim Hamilton fyrir lokamótið.
Til að vinna titilinn í Interlagos-brautinni í Sao Paulo eftir hálfan mánuð þarf Alonso að fá fjórum stigum meira en Hamilton; sigur myndi því aðeins duga að Hamilton yrði ekki framar en þriðji.
Það telur heimsmeistarinn að sé næstum því að biðja um of mikið. „Þetta var kannski ekki kraftaverk í dag, en eitthvað álíka,“ sagði hann um brottfall Hamiltons.
„Þrátt fyrir þetta verður mjög erfitt að vinna titilinn, ég veit að það verður ekki auðvelt að ná fjögurra stiga forskotinu frá Lewis. Ég þarf enn á einhverju verulega dramatísku ef ég á að vinna. Í kappakstri við eðlilegar aðstæður verður það útilokað,“ sagði Alonso eftir kappaksturinn í Sjanghæ.