Fittipaldi hvetur Ferrari að ráða Alonso

Emerson Fittipaldi sem liðsmaður McLaren.
Emerson Fittipaldi sem liðsmaður McLaren.

Emerson Fittipaldi, sem á sínum tíma varð tvisvar sinnum heimsmeistari ökuþóra í formúlu-1, segist hafa samúð með Fernando Alonso í því mótlæti sem hann hefur orðið fyrir hjá McLaren. Hvetur hann Ferrari til að ráða Alonso.

Fittipaldi varð á sínum tíma yngsti ökuþórinn til að verða heimsmeistari en hann vann titilinn 1972 og 1974. Hann var á sínum tíma liðsmaður McLaren en segir afar erfitt að tjá sig um samband Alonso og liðsins.

„Í hreinskilni sagt skiljum við sem utanaðkomandi áhorfendur ekki allt í málinu. Til dæmist kvartaði Fernando undan því að loftþrýstingur í dekkjunum hafi verið rangur í Japan og Kína - ég held þar hafi skeikað pundi sem er heilmikið í formúlu-1 þar sem nákvæmnin ræður öllu. Hafi hann haldið þessu fram þá hefur hann haft ástæðu til,“ sagði meistarinn fyrrverandi.

Miklar vangaveltur hafa orðið um framtíð Alonso hjá McLaren en Fittipaldi hvetur Ferrari til að ráða hann. „Með honum held ég Ferrari endurheimti aftur það sem liðið tapaði við að Schumacher hætti.

Michael var þess megnugur að bæta bílana og ég held Alonso sé það akkúrat líka. Án Schumacher hefur Ferrari farið aftur, að mínu viti. Með Fernando í sínum röðum sé ég fyrir mér Ferrari með besta bílinn,“ bætti Fittipaldi við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert