Jackie Stewart hvetur Mosley til afsagnar

Jackie Stewart veitir Nico Rosberg ráð.
Jackie Stewart veitir Nico Rosberg ráð. ap

Sir Jackie Stewart, þrefaldur fyrrverandi heimsmeistari í formúlu-1, hvetur Max Mosley til að segja af sér starfi forseta Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) fyrir að koma óorði á íþróttina.

Stewart hefur verið gagnrýninn á málatilbúnað FIA vegna njósnamálsins á dögunum o.fl. Það líkaði ekki Mosley sem brást við með því að hæðast að Stewart og kalla hann „löggilt fífl“ á blaðamannafundi.

Stewart lýsti njósnamálinu sem „nornaveiðum“ og nú gagnrýnir hann þá ákvörðun FIA að setja sérstakan eftirlitsmann til starfa í bílskúr McLarenliðsins í lokamóti ársins sem fram fer um komandi helgi í Sao Paulo í Brasilíu. Honum er ætlað að fylgjast með því að Fernando Alonso njóti jafnræðis við Lewis Hamilton gagnvart kappakstrinum.

Stewart segir þessa ákvörðun Mosley vanhugsaða og gefa hættulegt fordæmi.

„Formúla-1 er vettvangur þar sem eigendur borga bílstjórum og ráða tæknimenn til að búa til bíl og stjórnvald íþróttarinnar ætti ekki að skipta sér af innri starfsemi nokkurs liðs.

Ákvörðunin ber einnig vott um hræsni. Getið þið ímyndað ykkur FIA hjá Ferrari meðan Michael Schumacher var við stýrið, að krefjast þess að honum næstgengnir, Rubens Barrichello eða Eddie Irvine, nytu sömu sérréttinda og að báðir yrðu að keppa jafnfætis?", spyr Stewart í samtali við skoska blaðið Herald.

Hann segir einnig að efasemdir um eðlilega stjórn Mosley á FIA fari vaxandi og að grafið hafi undan áhrifum hans í auknu mæli. Meðal annars vegna þess að á sama tíma og vertíðin sé ein sú mest spennandi um langan aldur séu fjölmiðlar fullir af neikvæðum fréttum af íþróttinni.

„Sambandið er að skaða orðspor íþróttarinnar allrar og koma óorði á hana. Það hagar sér af síngirni og mér finnst gera verði meiri kröfur um að menn standi skil gjörða sinna. Kannski hefur Max Mosley verið of lengi í starfi. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að hann ætti að íhuga stöðu sína og að hefja beri leit að nýjum forseta sem sækja ber út fyrir íþróttina til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur,“ segir Stewart.

Stewart segir að hann og Mosley skipti í sjálfu sér engu í þessu máli, það snúist um ákvarðanir sem sé skaðvænlegar íþróttinni og menn yrðu að átta sig á að kominn væri tími á breytingar.

Mosley hafnar tilmælum Stewart um að segja af sér, samkvæmt ummælum sem höfð eru eftir honum á vefsetrinu autosport.com.

Þar segist hann standa við allt sem hann hafi áður sagt og segir yfirlýsingar heimsmeistarans fyrrverandi illa grunduð og til þess ætluð að auglýsa nýja sjálfsævisögu hans. Klikkir Mosley út með því að segja að akstursíþróttunum sé ekkert gagn af áliti og skoðunum Stewart.

Mosley sagði m.a. að Stewart klæddist eins og trúður, en …
Mosley sagði m.a. að Stewart klæddist eins og trúður, en hann hefur verið trúr uppruna sínum og jafnan mætt á mót í buxum sem minna á skoska vefnaðarhefð. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert