Meiri líkur eru á því en minni að Fernando Alonso keppi í síðasta sinn fyrir McLaren um helgina. Útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, skýrir frá því í dag, að stjórn Mercedes hafi ályktað um að Alonso eigi ekki að keppa fyrir liðið á næsta ári.
Mercedes-Benz er stærsti hluthafinn í McLaren og leggur liðinu til mótora í keppnisbíla sína.
Orðrómur hefur lengi verið á kreiki um meinta óánægju Alonso með veru sína hjá McLaren og hann sagður vilja burtu þótt bundinn sé hann liðinu 2008 auk þess sem það á valrétt á honum fyrir 2009.
Hann hefur undanfarið verið orðaður við fleiri lið en eitt, en helst við sitt gamla lið, Renault.
Einn af lýsendum þýsku sjónvarpsstöðvarinnar RTL, Kai Ebel, sagði við Bild í dag, að engu máli skipti hver niðurstaða keppninnar um heimsmeistaratitil ökuþóra. „Hann fer frá liðinu, hvort sem hann vinnur eða ekki,“ sagði Ebel en lokamót vertíðarinnar fer fram í Brasilíu um helgina.
Íþróttastjóri Mercedes, Norbert Haug, þykir ekki loka fyrir möguleikann á að Alonso sé á förum í viðtali við tímaritið Stern. „Láti einhver í ljós eindregna ósk um að vilja ekki eitthvað þá eru leiðir til að koma til móts við það,“ sagði hann.
En bætti svo við: „Við erum með samninga og munum skoða stöðuna þegar vertíðin er afstaðin.“ Hann sagði útilokað að McLaren myndi neyða Alonso til að taka frí frá keppni á næsta ári með því að neita honum um að keppa og ennfremur leyfa honum ekki að fara til annars liðs. „Það er ekki okkar stíll,“ staðhæfði Haug.