Räikkönen heimsmeistari

Räikkönen fagnar sigri og titli á verðlaunapalli í Sao Paulo.
Räikkönen fagnar sigri og titli á verðlaunapalli í Sao Paulo. ap

Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að vinna Brasilíukappaksturinn og með því sigraði hann í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Fernando Alonso hjá McLaren varð þriðji og Lewis Hamilton liðsfélagi hans sjöundi, en Räikkönen hlaut einu stigi meira en þeir í titilkeppninni.

Räikkönen vann sig fram úr Hamilton í ræsingunni og síðan fram úr Massa í seinna þjónustustoppi. Með hann á milli sín og Räikkönen varð Alonso af þeim möguleika að vinna titilinn þriðja árið í röð og verða fyrsti ökuþór sögunnar til að vinna tvo titla í röð hvorn með sínu liði.

Bilun, akstursmistök og röng áætlun

Hamilton tapaði fyrir Alonso í slag um fyrstu beygjurnar og féll þar með úr öðru sæti í það fjórða. Gerði síðan mistök og flaug út úr brautinni. Hökt í gírkassa og röng keppnisáætlun gerðu síðan út um möguleika hans.

Við gírkassavandann féll hann á hálfum hring eða svo úr fjórða sæti í það átjánda en vann sig síðan smám saman fram á við. Tók hins vegar þrjú stopp og átti fyrir vikið ekki möguleika til að komast upp í fimmta sæti sem dugað hefði honum til að vinna ökuþóratitilinn.

Räikkönen vann sinn sjötta mótssigur á árinu og fyrsta meistaratitilinn í lok sjöunda keppnisársins í formúlu-1. Hann er þrítugasti maðurinn til að verða heimsmeistari í greininni frá árinu 1950.

Sagan frá 1986 endurtekur sig

Með niðurstöðunni í dag endurtók sagan frá í lokamótinu 1986 sig. Þá voru síðast þrír í keppninni um titilinn þegar lokamótið hófst. Sá sem efstur var, Nigel Mansell á Williams, féll úr leik er dekk splundraðist. Liðsfélagi hans Nelson Piquet var annar að stigum en lánaðist ekki að vinna titilinn. Það gerði hins vegar Alan Prost á McLaren sem var þriðji að stigum fyrir mótið, eins og Räikkönen nú, og ók til sigurs.

Räikkönen er á fyrsta ári hjá Ferrari eftir að hafa keppt með McLaren og Sauber undanfarin ár. Hann byrjaði starfsferil sinn hjá Ferrari með sigri í fyrsta móti ársins, í Ástralíu.

Engin varð rimman á brautinni

Aldrei varð úr návígi milli titilkandidatanna þriggja og spurningin á seinni helmingi kappakstursins fyrst og fremst sú hvort Räikkönen kæmist fram úr liðsfélaga sínum Massa en það var forsenda þess að hann ynni titilinn en ekki Alonso.

Hamilton hafði verið með forystu í stigakeppni ökuþóra undanfarna fimm mánuði, eða frá í kanadiska kappakstrinum í Montreal. Er hann komst upp í sjöunda sæti seint í keppninni tryggði hann sér jafn mörg stig og Alonso og annað sætið í heimsmeistarakeppninni þar sem hann hefur oftar orðið í öðru sæti á mark í mótum ársins.

Úrslitin í Brasilíukappakstrinum

Lokastaðan í stigakeppni ökuþóra og bílsmiða

Räikkönen vann sig fram úr Hamilton í ræsingunni sem átti …
Räikkönen vann sig fram úr Hamilton í ræsingunni sem átti eftir að reynast drjúgt því þá var aðeins Massa á undan og gátu þeir spilað saman. ap
Räikkönen (t.v.) í stöðubaráttu við Massa í upphafi keppni. Þeir …
Räikkönen (t.v.) í stöðubaráttu við Massa í upphafi keppni. Þeir urðu í fyrstu tveimur sætum. ap
Liðsmenn Ferrari fagna Räikkönen í lok kappakstursins í Sao Paulo.
Liðsmenn Ferrari fagna Räikkönen í lok kappakstursins í Sao Paulo. ap
Nýr meistari og gamall. Räikkönen brosir breitt eftir að vinna …
Nýr meistari og gamall. Räikkönen brosir breitt eftir að vinna titilinn sem Alonso vann undanfarin tvö ár. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert