Kimi Räikkönen segist aldrei hafa misst trúna á að hann gæti orðið heimsmeistari í ár og segir þá þrautsegju lykilinn að því að hann stóð uppi sem meistari eftir lokamót vertíðarinnar í Sao Paulo í dag.
Um miðbik keppnistímabilsins var Räikkönen 26 stigum á eftir Lewis Hamilton og enn sjö stigum á eftir er kappaksturinn hófst í dag.
Á sama tíma og Hamilton gerði bæði klaufaleg mistök og varð um stundarsakir fyrir bilun ók Räikkönen til sigurs og vann titilinn með einu stigi, 110 stigum gegn 109 stigum Hamiltons og 109 stigum fráfarandi meistara, Fernando Alonso hjá McLaren.
„Vissulega vorum við ekki í sterkri stöðu á vissu stigi vertíðarinnar, en töldum okkur alltaf geta náð okkur á strik. Við töldum alltaf að við gætum gert betur en aðrir.
Gegnum bæði þykkt og þunnt stóðum við saman og gáfumst aldrei upp. Að lokum upplifum við það að vinna þegar upp er staðað þótt við höfum verið talsvert á eftir um tíma,“ sagði Räikkönen.
Hann þakkaði liði sínu fyrir frábært starf allt árið og bar sérstakt lof á liðsfélaga sinn Felipe Massa sem varð annar í kappakstrinum í dag en hann féll úr titilslagnum fyrir tveimur mótum.
Räikkönen segir sér hafa orðið ljóst að titilinn væri mögulegur eftir að Hamilton hafði flogið út úr brautinni á fyrsta hring, en sagðist aldrei hafa verið öruggur með titilinn fyrr en Hamilton var einnig kominn í mark.
„Ég náði góðu viðbragði og var orðin samhliða Felipe en við ætluðum ekki að slást. Ég komst fram úr Hamilton og síðan lenti hann út úr brautinni og þá fannst mér ég hafa fengið tækifæri.
Það var góður hraði í bílnum, spöruðum hann og dekkin, vi ðhefðum getað farið hraðar. Ég var aldrei fullviss, vissum ekki hvort einhver ætti eftir að stoppa af þeim sem voru á undan Lewis. Hann var sjöundi og þótt ég kláraði þá þurftu aðrir að gera það líka og það tók talsverðan tíma að bíða eftir því að heyra loks að ég hefði sigrað.
Ég er mjög ánægður, þetta var frábær dagur og góður endir á keppnistímabilinu,“ sagði Räikkönen.