Alonso andvígur áfrýjun McLaren

Alonso samfagnar Räikkönen á pallinum í Sao Paulo í gær.
Alonso samfagnar Räikkönen á pallinum í Sao Paulo í gær. ap

Fernando Alonso, fráfarandi heimsmeistari, segist telja það formúlu-1 til hnekkis fengi Lewis Hamilton heimsmeistaratitilinn upp í hendurnar fyrir tilstilli dómstóla. Slíkt gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir formúluna, að hans sögn.

Óvissa er um hvort Kimi Räikkönen hjá Ferrari heldur titlinum sem hann vann í Brasilíu í gær eftir að McLaren ákvað að áfrýja niðurstöðu dómara kappakstursins sem refsuðu ekki Williams og BMW fyrir að vera með ólöglegt bensín í tönkum bílanna í kappakstrinum.

Nico Rosberg á Williams og BMW-þórarnir Robert Kubica og Nick Heidfeld urðu á undan Hamilton, í fjórða, fimmta og sjötta sæti. Hefðu þeir verið dæmdir úr leik hefði Hamilton færst upp í fjórða sætið og þar með unnið titil ökuþóra með 112 stigum, gegn 110 stigum Räikkönen opg 109 stigum Alonso.

Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að bensínið í bílum Williams og BMW hafi verið of kalt samkvæmt gildandi reglum og því yrði ekki gripið til refsingar.

Nái áfrýjun McLaren hins vegar fram að ganga og ökuþórarnir þrír dæmdir úr missti Räikkönen titillinn til Hamiltons, sem fyrr segir.

Alonso segist álíta að slík staða gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir formúluna. „Það væri brandari og þeir eru þegar orðnir alltof margir. Gerðist slíkt yrði það til að jarða íþróttina,“ sagði Alonso við spænsku útvarpsstöðina Cadena Ser.

Neitar að vera á förum frá McLaren

Í viðtalinu neitaði Alonso því að hann væri á förum frá McLaren, kvaðst ekkert slíkt hafa íhugað þrátt fyrir opinskáa gagnrýni á liðsstjórnina. Gaf hann lítið fyrir fregnir um að hann væri á leið til síns gamla liðs, Renault.

„Ég veit af lausafregnunum, en ég hef ekki rætt við neitt annað lið og það er staðreynd, mergur málsins. Verði ég ekki áfram hjá McLaren þá get ég ekki sagt að Renault sé fyrsti kostur,“ sagði Alonso.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert