Alonso: Rangar ákvarðanir kostuðu McLaren titilinn

McLarenþórarnir Alonso og Hamilton skömmu fyrir ræsinguna í Sao Paulo …
McLarenþórarnir Alonso og Hamilton skömmu fyrir ræsinguna í Sao Paulo í gær. ap

Fernando Alonso segir að slæmar ákvarðanir á seinni helmingi keppnistíðarinnar sé ástæða þess að McLarenliðið vann ekki heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-1 í gær.

Alonso, meistari undanfarinna tveggja ára, og Lewis Hamilton voru í tveimur efstu sætum stigakeppninnar um titilinn er lokamót ársins rann upp í Sao Paulo í Brasilíu í gær.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari stóð hins vegar uppi sem sigurvegari og hreppti titilinn eftir röð mistaka af hálfu McLaren í kappakstrinum. Og Alonso gaf til kynna að mistökin eigi sér mun lengri sögu.

„McLaren tapaði af titlinum vegna ýmissa ákvarðana á seinni helmingi vertíðarinnar. Það er ekkert leyndarmál að það hjálpaði mér ekki, þeir gerðu ekkert mér í hag,“ sagði heimsmeistarinn fráfarandi við spænsku útvarpsstöðina Cadena SER í morgun.

Alonso, sem er á fyrsta ári hjá McLaren, fann að því við liðið vertíðina út í gegn að hann nyti ekki verðskuldaðrar virðingar sem heimsmeistari. Hann hélt því fram að liðið tæki breska nýliðann Hamilton fram yfir sig.

Keppnistímabilið var ekki vel skipulagt af okkar hálfu stjórnunarlega séð. Það vantaði liðstilfinninguna og árangurinn talar sínu máli. Hver og einn verður að draga lærdóm af vertíðinni, hefðum við farið aðrar leiðir væri árangurinn annar.

„Í síðustu mótunum voru hendur mínar og fætur bundnar. Ég fékk engu ráðið um ákvarðanatöku. Aðrir ákváðu hvernig ég skyldi keppa. McLaren tapaði og Ferrari gerði betri hluti en allir aðrir,“ sagði Alonso.

Hamilton flaug út úr brautinni á fyrsta hring í gær og tímabundið sambandsleysi við gírkassa gerði það að verkum að hann lauk keppni ekki framar en í sjöunda sæti.

Um skeið virtist hann eiga möguleika á að færast upp í fjórða sæti - og vinna titilinn þar með á stigum - þar sem þrír ökuþórar á undan honum reyndust með ólöglega kalt bensín í bílum sínum.

Eftirlitsmenn kappakstursins ákváðu hins vegar að refsa ekki Williams og BMW fyrir það. Þeirri ákvörðun hefur McLaren ákveðið að áfrýja og efaðist Alonso um ágæti þess í útvarpsviðtalinu.

„Vinni Hamilton titilinn vegna þessa yrði það ekki réttlátt og ég myndi skammast mín fyrir að vera í íþróttinni. Gefi þeir titil líta menn ekki á það sem gjöf heldur sem verðskuldað. Hann [Hamilton] yrði mjög sæll ef þeir gefa honum hann,“ sagði Alonso.

Hann sagði Räikkönen verðskulda titilinn þar sem hann vann hann á kappakstursbrautinni. „Sértu með flest stig þá ertu verðskuldaður meistari, rétt eins og í fótbolta. Klári maður 17 mót með fleiri stig en keppinautarnir þá vinnur hann verðskuldað,“ bætti McLarenþórinn við.

Alonso varð þriðji í kappakstrinum, einu sæti aftar en honum hefði dugað til að verða meistari þriðja árið í röð. Aðeins tveir ökuþórar hafa unnið heimsmeistaratitil ökuþóra þrisvar í röð, Juan Manuel Fangio og Michael Schumacher.

Alonso sprautar kampavíni yfir Räikkönen sem fagnar sigri í Sao …
Alonso sprautar kampavíni yfir Räikkönen sem fagnar sigri í Sao Paulo og þar með titli ökuþóra. reuters
Titilkandidatarnir í upphafi lokamótsins. Räikkönen komin fram úr Hamilton og …
Titilkandidatarnir í upphafi lokamótsins. Räikkönen komin fram úr Hamilton og Alonso að læðast inn fyrir hann og fram úr. ap
Hamilton óskar Räikkönen til hamingju með sigur og titil í …
Hamilton óskar Räikkönen til hamingju með sigur og titil í Sao Paulo. ap
Hamilton flaug út úr brautinni á fyrsta hring eftir að …
Hamilton flaug út úr brautinni á fyrsta hring eftir að hafa tapað stöðuslag við Alonso. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert