Óvissa um titilinn vegna áfrýjunar McLaren

Kimi Räikkönen fær sér kampavínssopa eftir sigurinn í Brasilíu gær. …
Kimi Räikkönen fær sér kampavínssopa eftir sigurinn í Brasilíu gær. Enn er ekki útséð um hvort hann er einnig heimsmeistari. Reuters

McLaren-liðið hefur gert Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) viðvart um að það áformi að áfrýja niðurstöðu dómara Brasilíukappakstursins sem ákváðu að refsa ekki BMW og Williams fyrir meint ólöglegt bensín í bílum þeirra. Vegna þessa ríkir óvissa um hvar heimsmeistaratitill ökuþóra hafnar; hjá Kimi Räikkönen eða Lewis Hamilton.

Eftir rekistefnu í gærkvöldi staðfestu dómararnir í nótt óbreytt úrslit kappakstursins og ákváðu að sleppa BMW og Williams við refsingu þrátt fyrir skýrslu tæknifulltrúa FIA um að hiti bensínsýna sem tekin voru úr bílum liðanna hafi verið ólöglegur.

McLaren ákvað að áfrýja niðurstöðunni þessum úrskurði og þar til botn fæst í það ríkir óvissa um hvar titillinn hafnar. Räikkönen vann kappaksturinn og titilinn þar sem Hamilton varð í sjöunda sæti eftir akstursmistök og tímabundna bilun í gírkassa.

Taki áfrýjunardómur FIA undir með McLaren og snúi ákvörðun dómaranna við dæmast þrír ökuþórar Williams og BMW sem voru á undan Hamilton úr leik. Færðist hann því upp í fjórða sæti og þar með fengi hann nógu mörg stig til að vinna titilinn.

Næsta skref í málinu er að dómstóllinn samþykki að taka áfrýjun McLaren en það er forsenda þess að vitnaleiðslur og efnisleg meðferð málsins fari fram. Að slíkri ákvörðun tekinni verður fyrst ákveðið hvenær málið verður tekið fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert