Max Mosley, forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins, segir að of mikið hafi verið gert úr árangri Lewis Hamiltons og mikilvægi hans fyrir formúlu-1. Hann segir út í hött það álit manna að Hamilton sé stjarna sem íþróttin geti ekki verið án.
Feikilegir hæfileikar Hamilton, fríðleiki og það að vera fyrsti blökkumaðurinn sem getur sér frægðar í formúlu-1 hefur leitt til samjöfnuðar við golfmanninn Tiger Woods hvað áhrif fyrir íþróttina varðar.
Mosley heldur því til streitu að aðrir efnilegir ungir ökuþórar hefðu getað skapað ekki minni eftirvæntingu og áhuga og Hamilton hefur gert á sinni fyrstu keppnistíð, en hann vantaði að lokum aðeins eitt stig til að verða heimsmeistari ökumanna.
Mosley viðurkennir, með semingi þó, að skjótur frami Hamiltons í ár hafi vakið gríðarlegan áhuga á formúlunni um heim allan. „Það kemur alltaf einhver nýr. Væri það ekki hann hefði það orðið annað hvort [Nico] Rosberg eða [Robert] Kubica eð aeinhver hinna nýju stirnanna, [Sebastian] Vettel gæti allt í einu orðið sá stóri.
Ég held því að það gæti þeirrar tilhneigingar að ofgera mikilvægi Lewis Hamilton,“ sagði Mosley. Hann er á öndverðum meiði við alráðinn Bernie Ecclestone sem lýst hefur allt annað viðhorf til Hamiltons og segir hann hafa verið eins og sendingu af himnum ofan fyrir formúlu-1.
Mosley heldur því einnig fram, að áframhaldandi velgengni Hamiltons gæti jafnvel haft neikvæð áhrif fyrir formúluna. Að því kæmi að kvartað yrði undan því eins og átti við um Michael Schumacher, segir FIA-forsetinn.
McLaren, lið Hamiltons, hefur kært ákvörðun dómara sem dæmdu ekki þrjá ökuþóra úr leik sem voru á undan nýliðanum í lokamótinu. Verði sú kæra tekin til greina af áfrýjunardómstóli FIA um miðjan nóvember gæti það leitt til þess að Hamilton hampi heimsmeistaratitli ökuþóra en ekki Kimi Räikkönen hjá Ferrari.
Mosley segist telja „afar ólíklegt“ að kæra McLaren nái fram að ganga. „Jafnvel þótt þeir dæmi bílana þrjá úr leik hvílir ekki sú skylda á réttinum að færa Hamilton fram,“ segir FIA-forsetinn.