Jón Ingi Þorvaldsson frá Akranesi sýndi mikla keppnishörku á seinni keppnishelgi Palmer Audi-formúlunnar og endaði mótaröðina með 16 stig í 22. sæti af 27 keppendum sem tóku þátt. „Ég get ekki verið annað en sáttur við þann árangur sem ég hef náð í haustmótaröðinni og vonast til að geta tekið þátt í allri FPA-mótaröðinni á næsta ári,“ segir Jón Ingi um keppnina.
Keppt var þrisvar í Snetterton-brautinni í Norfolk í dag en fyrir viku fóru þrjú fyrri haustmóta Palmer Audi-formúlunnar (FPA) fram í hinni sögufrægu Brands Hatch-braut suðaustur af London.
Í fyrstu keppninni í dag ræsti Jón Ingi í 20. sæti og kom í mark í sama sæti. Í annarri keppninni ræsti hann í 21. sæti og endaði í 19. sæti. Besta árangri dagsins náði hann síðan í þriðju keppninni þar sem hann ræsti í 19. sæti og náði með harðfylgi að vinna sig upp í 17. sætið eftir að hafa misst þrjá ökumenn fram úr sér um miðbik keppninnar.
„Rétt eins og um síðustu helgi missti ég nánast alla fram úr mér í startinu í fyrstu tveimur umferðunum þar sem ég hafði ekkert náð að æfa ræsinguna.
Þar sem keppnin um síðustu helgi fór fram í rigningu þurfti ég síðan að læra upp á nýtt að ræsa í þurru og náði ekki almennilega tökum á því fyrr en í þriðju umferðinni. Í þeirri umferð átti ég fyrir vikið mjög skemmtilegan slag við þá sem voru næstir mér í rásröðinni.
Ég er hins vegar einfaldlega með langminnstu reynsluna af ökumönnunum í þessari keppni. Það eru aðeins fjórir ökumenn í hópnum með svipaðan bakgrunn og ég í akstursíþróttum, þ.e.a.s. koma beint úr Rotax körtum, en þeir hafa allir mun meiri reynslu af því en ég.
Miklu nær brautartíma bestu manna
Hinir 17 eru allir reynsluboltar úr hinum ýmsu greinum kappaksturs, svosem Formula Renault, Formula Ford, Formula BMW og Champcar Atlantics. Fyrir vikið hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að keppa við þá þar sem við fáum nákvæm gögn úr bílnum eftir hverja aksturslotu og samanburð við besta tíma sem næst í þeirri lotu.
Þótt ég sé ekki að ná framar í rásröðina en um síðustu helgi þá er ég hins vegar stöðugt að ná framförum og er nú mun nær brautartíma bestu manna. Um síðustu helgi var besti tími minn í tímatökunum 3,6% frá tíma fremstu manna en í tímatökunum í gær var ég kominn niður í 2,9% frá þeim fremstu í rásröðinni.
Og í keppendahópi sem þessum þá er hvert sæti frá botninum stórsigur fyrir mig. Ég get því ekki verið annað en sáttur við þann árangur sem ég hef náð í haustmótaröðinni og vonast til að geta tekið þátt í allri FPA mótaröðinni á næsta ári,"segir Jón Ingi um þátttöku sína í FPA-mótaröðinni.
Karatemeistarinn fyrrverandi segir og að þátttakan hafi verið alveg sérstök lífsreynsla. „Ég held ég hafi aldrei þurft að klífa brattari lærdómskúrfu í nokkru sem ég hef tekið mér fyrir hendur og fyrir vikið er þetta búin að vera magnaðasta lífsreynsla mín hingað til.“
Jón Ingi segir að þessa seinni helgi FPA-formúlunnar hafi verið mun meira í húfi fyrir keppendur en um fyrri helgi þar sem sigurvegari keppninnar í dag hlýtur tilnefningu til hinna eftirsóttu McLaren Autosport BRDC verðlauna.
Þeir sem tilnefndir eru til verðlaunanna fara í gegnum tveggja daga þjálfun og prófanir í ýmsum greinum kappaksturs, þar á meðal í formúlu-1 bíl McLaren.
Styrkleiki keppenda mikill
„Fimm ökumenn bættust í hópinn til að keppa um tilnefninguna og fyrir vikið var keppnin enn harðari en um síðustu helgi. Á fundi með ökumönnum eftir tímatökurnar í gær fullyrti Jonathan Palmer að hér væri samankominn sterkari hópur en í nokkurri annarri keppni í Bretlandi þetta árið.Brautartímar segja líka alla söguna um styrkleika keppenda en meira en sekúndu munaði á brautartímum núna um helgina og þegar síðast var keppt á brautinni í FPA-mótaröðinni.
Sigurvegari helgarinnar var Nick Tandy en hann vann einnig nýlega sigur í hinu árlega Formula Ford Festival á Brands Hatch. Hlutskarpastur í haustmótaröðinni var hins vegar Richard Keen en hann hefur m.a. keppt í Formula Renault og Formula Ford undanfarin ár,“ segir Jón Ingi.
Sýnt frá mótunum í Motors TV
Íslenskir áhugamenn eiga þess kost á að fylgjast með keppninni í sjónvarpi á næstunni. Sýnt verður frá haustmótaröð FPA á sjónvarpsstöðinni Motors TV, sem m.a. er dreift á Breiðbandinu og Digital Ísland, á eftirfarandi tímum:
Fyrri umferð (Brands Hatch):
Fimmtudaginn 8. nóvember kl. 20:30
Föstudaginn 9. nóvember kl. 18:00
Laugardaginn 10. nóvember kl. 01:30 og 11:15
Mánudaginn 12. nóvember kl. 14:30 og 19:30
Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 13:00
Seinni umferð (Snetterton):
Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:00
Föstudaginn 16. nóvember kl. 10:00
Laugardaginn 17. nóvember kl. 05:00 og 10:00
Þriðjudaginn 20. nóvember kl. 13:30
Fimmtudaginn 22. nóvember kl. 02:00
Sunnudaginn 25. nóvember kl. 23:00