Stutt er í að Fernando Alonso og Renault nái samkomulagi um að heimsmeistarinn fyrrverandi keppi aftur fyrir sitt gamla lið. Liðin er frestur sem Flavio Briatore setti fyrir Alonso til að taka boði liðsins, en horft er framhjá því.
Spænska íþróttadagblaðið Marca segir að viðræður Alonso og Renault gangi liðlega og búast megi við samningi innan fárra daga.
Alonso var upphaflega andvígur þeirri kröfu Briatore að hann semdi til tveggja eða þriggja ára. Niðurstaðan virðist ætla verða sú að hann hafi undankomuleið eftir fyrsta árið nái liðið ekki tilteknum lágmarksárangri.
Því ætti hann eftir sem áður möguleika á að ráða sig til Ferrari eða BMW 2009 verði gengi Renault svipað á næsta ári og í ár.
Breska blaðið The Guardian segir í frétt í dag, að ráði Alonso sig til Renault verði liðsfélagi hans þar Nelson Piquet yngri, tilraunaþór liðsins í ár.
Blaðið segir að Heikki Kovalainen sé líklegasti kandídatinn í hið lausa sæti sem Alonso skilur eftir sig hjá McLaren.
Giancarlo Fisichella mun hafa þegar verið tjáð af hálfu forsvarsmanna Renault að þar verði ekkert starf fyrir hann að hafa á næsta ári.