Sérfræðingar Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) hófu í vikunni rannsókn sína á 2008-bíl McLarenliðsins í samræmi við ákvörðun íþróttaráðs FIA vegna njósnamálsins svonefnda.
Ráðið vísaði McLaren úr leik í keppni bílsmiða 2007 þar sem fyrrverandi aðalhönnuður liðsins, Mike Coughlan, reyndist hafa haft undir höndum leynileg hugverk Ferrariliðsins.
Er það var dregið fram í dagsljósið vék McLaren Coghlan úr starfi. Íþróttaráðið sagðist í úrskurði sínum í september ætla að bíða með hvort McLaren yrði einnig refsað á næsta ári þar til 2008-bíll þess hefði verið rannsakaður með tilliti til þess hvort hann byggðist að einhverju leyti á hönnunarhugmyndum frá Ferrari.
Fulltrúar FIA voru að störfum í tæknimiðstöðvum McLaren í Woking í Surrey í gær og fyrradag. Skoðuð þeir þar gögn og skjöl ofan í kjölinn og höfðu með sér á brott gögn til frekari skoðunar.
Af hálfu McLaren hefur verið varist fregna af rannsókninni. Fulltrúi liðsins vill aðeins segja við vefsetrið autosport.com í dag, að rannsókn hjá liðinu sé hluti af ákvörðun íþróttaráðsins og liðið sýni FIA fulla samvinnu.
Heimildir herma að FIA hafi í raun bannað McLaren að tjá sig nokkuð um rannsóknina og hvernig hún gekk fyrir sig. Sambandið hefur heldur ekki viljað tjá sig neitt.
FIA-forsetinn Max Mosley sagði í síðustu viku að sambandið myndi líklega leita til sérfræðinga þriðja aðila um að fara yfir og meta gögnin um 2008-bíl McLaren.
„Rannsóknin verður ítarleg og við munum notast við utanaðkomandi sérfræðinga. Og við munum gera allt sem mögulegt er til að tryggja að ekkert hugvit Ferrari verði að finna í bílum McLaren. Reynist svo vera verðum við að íhuga einhvers konar ráðstöfun,“ sagði Mosley við BBC.
Hann sagði það ekki endilega þýða að McLaren yrði aftur útilokað frá keppni bílsmiða. „Líklegra væri að þeir hæfu keppni með stig í mínus,“ sagði Mosley.