Lögmenn McLaren biðja um titilinn handa Hamilton

Hamilton óskar Räikkönen til hamingju með sigur og titil í …
Hamilton óskar Räikkönen til hamingju með sigur og titil í lokamóti ársins í Sao Paulo. ap

Einn af lögfræðingum McLarenliðsins fór fram á það fyrir áfrýjunardómstól Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) í dag, að Lewis Hamilton yrði færður fram í úrslitum Brasilíukappakstursins og þannig gerður að heimsmeistara ökuþóra í stað Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Í málflutningi sínum fyrir dómstólnum sagði lögmaðurinn, Ian Mill, að BMW- og Williamsbílarnir sem urðu á undan Hamilton í mark í Sao Paulo hafi brotið reglur um eldsneytishita og notið ávinnings af því.

Verði þrír ökuþórar sem í hlut eiga dæmdir úr leik gæti Hamilton færst úr sjöunda sæti í það fjórða sem myndi afla honum nógu margra stiga til að komast fram úr Räikkönen og þar með hljóta titil ökuþóra.

Samkvæmt reglum er dómurum kappaksturs í sjálfsvald sett hvort þeir færi ökuþóra fram sem urðu á eftir brottviknum ökumönnum. Allt eins er hægt að láta þá halda sætinu, í þessu tilviki yrði Hamilton þá áfram í sjöunda sæti þó enginn teldist hafa komið á mark í fjórða, fimmta og sjötta sæti verði Nico Rosberg, Robert Kubica og Nick Heidfeld dæmdir úr.

Sjálfur segist Hamilton frekar myndu vilja vinna titil á kappakstursbrautinni en fyrir dómi.

„Grundvallaratriðin eru augljós,“ sagði Mill, „sé reglan brotin er um ávinning að ræða. Viðurlögin, er ég hræddur um, er að dæma ber úr leik,“ sagði lögmaður McLaren við vitnaleiðslurnar í dag.

Hann skoraði á dómarana fjóra að láta það ekki hafa áhrif á niðurstöðu sína þótt hún geti ráðið um hver verður heimsmeistari. „Ég bið ykkur um að skoða málið sem það væri hvaða lið sem er á hvaða stigi vertíðar sem væri,“ sagði hann.

„Í hvert sinn sem hingað til hefur verið um ógildingu úrslita að ræða hefur röðin verið færð upp . . . allt og sumt sem við förum fram á er að þið haldið ykkur við þær venjur,“ sagði Mill.

Hann sagði að ökuþórarnir þrír sem í hlut ættu kynnu að vera alveg saklausir af brotinu en eftir sem áður hefðu þeir notið aukagetu hinna brotlegu bíla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert