McLarenliðið hefur boðist til að stöðva alla þróun íhluta í 2008-bíl liðsins sem kunna að hafa verið smíðaðir undir áhrifum hugverka frá Ferrari sem komust í hendur fyrrverandi aðalhönnuðar McLaren. Jafnframt hefur liðið beðið Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) afsökunar á að hafa ekki áttað sig á hversu mikið af Ferrarigögnum hefði breiðst út meðal starfsmanna sinna.
Í bréfi sem McLaren skrifaði Max Mosley forseta FIA 5. desember sl. og birt er á heimasíðu liðsins í dag er viðurkennt að Ferrarigögnin komust í hendur mun fleiri liðsmanna en áður var talið.
Og í ljósi rannsóknar fulltrúa FIA á 2008-bíl McLaren, þar sem því er velt upp að hugmyndir að hönnun gírskiptingar, fljótvirkrar bensínáfyllingar og notkun koltvíildis sem dekkjagas gætu allteins hafa verið sóttar í gögnin frá Ferrari, hefur McLaren boðist til að þróa þessi kerfi ekki frekar.
„Til að koma jafnvel í veg fyrir möguleikann á því að gögn Ferrari hafi áhrif á getu okkar árið 2008 hefur McLaren lagt fram ítarlegar tillögur um skuldbindingar til FIA sem fela í sér bann við þróun þriggja óskyldra kerfa bílsins,“ segir í yfirlýsingu McLaren.
Þar kemur einnig fram að liðið hefur undanfarna mánuði tekið starfsstefnu sína og verklagsreglur með tilliti til ráðningar starfsfólks og verkstjórnar til gagngerrar endurskoðunar. Niðurstöður þess hafi verið kynntar FIA og liðið hafi samþykkt að sýna fram á að hinar nýja starfsmannastefna sé að öllu leyti komin til framkvæmda.
„McLaren biður FIA, Ferrari, samfélag formúlu-1 og unnendur íþróttarinnar um heim allan formlegrar afsökunar og býðst til að fullvissa menn um að breytingar eiga sér nú stað sem eiga að tryggja að sambærilegir hlutir muni nokkru sinni endurtaka sig. McLaren hefur einnig boðist til að greiða kostnað sem fallið hefur á FIA vegna rannsóknar sambandsins.
Það er óskMcLaren að komast út úr þessum málum og geta einbeitt sér að keppnistíð næsta árs,“ segir í tilkynningu McLaren.
Til stóð af hálfu íþróttaráðs FIA að ljúka njósnamálinu endanlega á fundi þess í byrjun desember. Þar sem vísbendingar þóttu vera fyrir því að við hönnun 2008-bíls McLaren hafi hugsanlega verið stuðst við hugmyndir er finna mætti í hugverkum Ferrari er komust í hendur aðalhönnuðar McLaren sl. vor ákvað ráðið að skoða málið enn frekar.
Afréð ráðið að taka málið upp á fundi sínum á valentínusardeginum í febrúar nk. og úrskurða þá hvort McLaren bæri frekari refsing en á nýliðinni vertíð eða hvort það yrði skorið úr snörunni.
Yfirlýsing McLaren