Schumacher sætir rannsókn

Schumacher æfir sig í dag á Wembley í London fyrir …
Schumacher æfir sig í dag á Wembley í London fyrir kappakstur meistaranna á morgun. ap

Michael Schumacher á yfir höfði sér lög­reglu­rann­sókn vegna ein­hvers mest um­fjallaða akst­urs hans í seinni tíð; akst­ur níu manna leig­bíls af gerðinni Opel í Þýskalandi fyr­ir nokkr­um dög­um.

Lög­regl­an og sak­sókn­ar­ar í Coburg í Þýskalandi telja að lög­brot hafi verið framið og hafa stefnt fyr­ir sig bæði Schumacher og leigu­bíl­stjór­an­um Tuncer Yilmaz, sem ljóstraði upp um ferðina frægu.

Yilmaz sagði svo frá í frétt­um sem farið hafa um alla heims­byggðina að Schumacher hafi verið kom­inn í tímaþröng og óskað eft­ir því við hann að fá að keyra leigu­bíl­inn sjálf­ur út á flug­völl.

Hann sagði Schumacher hafa „botnað“ bíl­inn alla leið út á flug­völl, ekki slegið af í beygj­um  og tekið fram úr öðrum bíl­um „á ótrú­leg­ustu stöðum“ í Coburg.

Yilmaz sagði að auk þess að borga 60 evru gjald eins og mæl­ir kvað á um hafi hann gefið hon­um 100 evr­ur að auki fyr­ir að leyfa sér að keyra bíl­inn svo hann gæti komið sér og fjöl­skyld­unni út á flug­völl í tæka tíð.

Með þessu þykir Yilmaz hafa framið lög­brot því óheim­ilt mun vera að farþegi keyri leigu­bíl. Á hann því yfir höfði sér refs­ingu auk Schumachers, ef sannað þykir að þeir hafi gerst sek­ir um lög­brot.  

„Við erum að skoða málið og hvað ná­kvæm­lega átti sér stað,“ seg­ir talsmaður lög­regl­unn­ar í Coburg við staðarblaðið Neue Presse.  

Sjálf­ur sagðist Schumacher undr­andi á frétta­flutn­ingi af máli þessu á blaðamanna­fundi í London í dag en þar kepp­ir hann í kapp­akstri meist­ar­anna, sem fram fer á Wembley á morg­un. Sagði hann málið hafa verið blásið upp úr öllu valdi og „aldrei hafi minni fluga verið gerð að stærri fíl.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert