Telja njósnahneykslin ekki hafa skaðað formúluna

Voru njósnamálin formúlu-1 bara til góðs?
Voru njósnamálin formúlu-1 bara til góðs? mbl.is/mclarenf1

Njósnahneyksli í ár voru góð fyrir formúluna, segja þrír málsmetandi menn. Allir hafna þeir því að hneykslin hafi skaðað íþróttina þótt málunum hafi verið líkt við lyfjahneyksli í atvinnuhjólreiðum.

Annars vegar var um að ræða njósnamál sem varðaði Ferrari og McLaren og hins vegar McLaren og Renault. 

Mario Andretti, heimsmeistari ökuþóra árið 1978, segir við tímaritið Autoweek að menn haldi ef til vill að málin hafi skaðað trúverðugleika íþróttarinnar. „En vitiði hvað? Þau dróu heilmikla athygli að henni, sem er ekki slæmt.“

Niki Lauda, sem varð heimsmeistari þrisvar sinnum, er því sammála að áköf umfjöllun fjölmiðla geti þegar upp verður staðið talist hafa verið jákvæð fyrir formúluna. 

„Þetta var mjög gott ár fyrir formúlu-1 hvað athygli varðar,“ sagði hann við tímaritið Business 24-7. „Það kraumaði allt í vondum fréttum, en þær eru betri en engar,“ bætti Lauda við.

Max Mosley, forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), segir loks í samtali við enska blaðið The Guardian: „Fólk hefur áhuga á hinu mannlega, og sú hlið Ferrari-McLaren málsins fangaði athygli fjölda fólks utan formúlu-1.

Umfjöllunin eykur í raun áhuga og athygli. Því held ég hún skaði ekki formúluna meðan styrktarfyrirtækin telja íþróttinni heiðarlega stýrt og stjórnað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert