Alonso: Kem til baka til Renault sem betri ökumaður

Alonso á R28-bílnum við frumsýningu 2008-bíls Renault í París í …
Alonso á R28-bílnum við frumsýningu 2008-bíls Renault í París í dag.

"Ég sný aftur til Renault sem miklu betri ökumaður en þegar ég yfirgaf liðið í vertíðarlok 2006. Erfiðleikar á síðasta ári hafa og gert mig staðráðnari í að standa mig vel í ár. Og að hafa kynnst annarri tæknilegri hugmynda- og aðferðafræði er gagnlegur lærdómur og nýtist mér vel," sagði Fernando Alonso á frumsýningu Renaultliðsins í París.

Alonso sagði það hafa verið góða tilfinningu að koma aftur í bílsmiðju Renault í Enstone eftir eins árs fjarveru, en hann keppti fyrir McLaren í fyrra.

Frumsýning Renault fór fram í nýrri og glæsilegri upplýsinga- og kynningarmiðstöð franska bílafyrirtækisins í útjaðri Parísar að viðstöddum tæplega 600 blaða- og fréttamönnum, ljósmyndurum og kvikmyndatökumönnum.

"Það var eins og tíminn hefði staðið í stað, öll sömu andlitin og viðmótið mjög gott. Mér leið strax vel og það sparar mikinn tíma að þurfa ekki að kynnast nýjum mannskap, kynnast hugmyndum hans og öðlast traust tæknimannanna. Þarna þekki ég allt og alla og við gátum sest strax niður og hafist handa við að þróa bílinn," sagði Alonso.

"Liðsmenn eru mjög áhugasamir um að bæta fyrir slakt gengi í fyrra. Ég prufukeyrði 2007-bílinn í vetur og hann var ekki svo slæmur, var mjög meðfærilegur og sprækur en vantaði einungis meiri vængpressu. Nýi bíllinn virkar mun betri og nú höfum við febrúar til að bæta hann til að geta blandað okkur í toppslaginn. Að því stefnum við, en hvort það tekst strax frá fyrsta móti veit enginn fyrr en á hólminn er komið," sagði Alonso.

Alonso kveðst mun betri ökumaður í ár en 2006 er …
Alonso kveðst mun betri ökumaður í ár en 2006 er hann ók síðast fyrir Renault. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert