Mark Webber lauk æfingalotu vikunnar í Barcelona í dag með því að setja hraðasta hring dagsins. Virðist Red Bull bíllinn mun sprækari í dag en undanfarna daga.
Reyndar hafa bílar Red Bull ekki virkað sérlega sprækir undanfarnar tvær vikur, fyrr en í dag. Bíllinn er búinn mjög óvenjulegum kambi á vélarhúsinu og virðist það skila árangri.
Besti hringur Webber var fjórum hundruðustu úr sekúndu betri en tími næsta manns, Heikki Kovalainen hjá McLaren. Þriðja besta tímann setti hinn McLarenþórinn, Lewis Hamilton.
Robert Kubica undirstrikaði að BMW hefur komist fyrir vanda í jafnvægi bílsins. Var hann aðeins nokkrum hundruðustu úr sekúndu lengur með hringinn en McLarenþórarnir.
Skyldi það vera til marks um svipaða stöðu bíla, að innan við sekúndu munaði á tíma Webber og tíunda manns, Sebastian Vettel á Toro Rosso, en hann ók hraðast í gær.
Í þessum hópi voru þó ekki nýju bílar Hondaliðsins sem átt hefur slaka daga í Barcelona. Rubens Barrichello og Jenson Button voru í 11. og 13. sæti tímalistans í lok dagsins.
Williamsliðið ók ekki í dag, ákvað að hætta við það þar sem liðið glímir við galla í framvæng sem hrjáði ökuþórana í gær og fyrradag. Liðið vill fá þennan ágalla alveg út úr heiminum áður en að næstu prófanalotu kemur.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Hri. |
---|---|---|---|---|
1. | Webber | Red Bull | 1:22.385 | 65 |
2. | Kovalainen | McLaren | 1:22.422 | 67 |
3. | Hamilton | McLaren | 1:22.459 | 92 |
4. | Kubica | BMW | 1:22.492 | 83 |
5. | Alonso | Renault | 1:22.509 | 63 |
6. | Heidfeld | BMW | 1:22.874 | 79 |
7. | Bourdais | Toro Rosso | 1:22.887 | 80 |
8. | Coulthard | Red Bull | 1:23.889 | 81 |
9. | Piquet | Renault | 1:23.039 | 64 |
10. | Vettel | Toro Rosso | 1:23.232 | 74 |
11. | Barrichello | Honda | 1:23.795 | 84 |
12. | Sutil | Force India | 1:23.800 | 86 |
13. | Button | Honda | 1:23.808 | 85 |