Fordæma árásir á Hamilton

Lewis Hamilton við æfingar í Barcelona.
Lewis Hamilton við æfingar í Barcelona. ap

Spænska akstursíþróttasambandið (RFEA) hefur fordæmt framferði fólks í stúkum Barcelonabrautarinnar sem svívirti Lewis Hamilton á grundvelli kynþáttar hans er hann sinnti bílprófunum fyrir McLaren undanfarna þrjá daga í Barcelona.

Hvatti sambandið eigendur keppnisbrauta til að sjá til þess að atburðir af þessu tagi endurtækju sig ekki. Vegna kynþáttafordóma eiga Spánverjar nú á hættu að verða sviptir mótshaldi bæði í Barcelona og í Valencia, en þar fer Evrópukappaksturinn fram í ár.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) lýsti óánægju sinni í morgun og  hefur krafið RFEA um skýrslu um framkomu áhorfenda í Barcelona. Vallarstjórnin í Barcelona sagðist í dag ekki myndu þola frekara framferði eins og átti sér stað um helgina og sagðist heilshugar styðja afstöðu FIA og tilraunir til að berjast gegn kynþáttafordómum á vettvangi íþróttarinnar.

Í yfirlýsingu sinni sagði RFEA atburði helgarinnar með öllu óskiljanlega og lýsti sérstökum stuðningi við McLarenliðið og sér í lagi Lewis Hamilton.

„Kappakstur er íþrótt þar sem ekki verður leyft að skera á alúðlegt samband unnenda íþróttarinnar, ökumanna og liða. Þessi tegund brjálæðinga sem gera ekki greinarmun á íþróttalegri samkeppni og ofbeldi ber að skilja, að sambandið hefur enga þolinmæði gagnvart þeim,“ sagði RFEA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert