McLarenmenn höfðu yfirhöndina gegn Ferrari annan daginn í röð við bílprófanir í Barcelona. Lewis Hamilton setti besta brautartímann og liðsfélagi hans Heikki Kovalainen þann næstbesta. Sló hann landa sínum og heimsmeistara, Kimi Räikkönen, við.
McLarenliðið prófaði í dag nýjungar í bílinn og var Hamilton hálfri sekúndu fljótari með hringinn en Räikkönen. Þykir ljóst að frammistaða þeirra Kovalainen lyfti lundinni meðal liðsmanna.
Fyrir hádegi notuðu McLaren tíman til að æfa þjónustustopp og líktu eftir tímatökum. Eftir hádegi óku þeir hins vegar í löngum lotum.
Nico Rosberg sýndi eina ferðina enn að við miklu má búast af hálfu Williams í ár. Setti hann fjórða besta tímann og varð á undan Felipe Massa hjá Ferrari.
Árangur Giancarlo Fisichella hjá Force India, Mætti Indlands, er eftirtektarverður en hann setti sjötta besta tíma dagsins á nýja bíl liðsins.
Sebastian Vettel hljóp í skarðið fyrir David Coulthard hjá Red Bull og sýndi hvers hann er megnugur með sjöunda besta tímanum í fyrsta sinn sem hann ekur RB4-bílnum.
Coulthard meiddist á hálsi við æfingar og verður ákveðið á morgun hvort hann getur hafið æfingar á ný eða hvort Vettel ekur áfram.
Jenson Button náði loks að bæta Hondabílinn umtalsvert og setti tíunda besta tímann. Athygli vekur að Fernando Alonso hjá Renault náði aðeins 13. besta tíma dagsins.
Niðurstaða æfingarinnar varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Hri. |
---|---|---|---|---|
1. | Hamilton | McLaren | 1:21.234 | 81 |
2. | Kovalainen | McLaren | 1:21.434 | 68 |
3. | Räikkönen | Ferrari | 1:21.722 | 72 |
4. | Rosberg | Williams | 1:22.309 | 75 |
5. | Massa | Ferrari | 1:22.513 | 102 |
6. | Fisichella | Force India | 1:22.516 | 102 |
7. | Vettel | Red Bull | 1:22.558 | 109 |
8. | Kubica | BMW | 1:22.625 | 94 |
9. | Button | Honda | 1:22.659 | 67 |
10. | Liuzzi | Force India | 1:22.942 | 89 |
11. | Nakajima | Williams | 1:22.977 | 100 |
12. | Trulli | Toyota | 1:23.023 | 98 |
13. | Alonso | Renault | 1:23.112 | 77 |
14. | Barrichello | Honda | 1:23.169 | 74 |
15. | Heidfeld | BMW | 1:23.284 | 77 |
16. | Bourdais | Toro Rosso | 1:23.323 | 98 |
17. | Webber | Red Bull | 1:23.458 | 58 |
18. | Piquet | Renault | 1:23.467 | 45 |
19. | Glock | Toyota | 1:23.561 | 80 |