Jarno Trulli lauk síðasta bílprófanadegi vetrarins með því að setja besta brautartímann í Barcelona. Virðist Toyotan hafa tekið miklum framförum við reynsluakstur í vetur en næst á dagskrá liða er fyrsti kappakstur ársins, í Melbourne eftir röskan hálfan mánuð.
Trulli var tæplega hálfri sekúndu fljótari með hringinn en næsti maður, David Coulthard hjá Red Bull. Hermt er að báðir hafi náð tímum sínum er þeir líktu eftir tímatökum og því með lítið bensín á bílunum.
„Jákvæður dagur, það má enn bæta bílinn en þetta sýnir að liðið hefur gert góða hluti í vetur. Auðvitað komust við ekki að því hver raunveruleg staða er fyrr en í Melbourne. Ég er bjartsýnn á vertíðina og útlitið er mun betra hjá okkur nú en í fyrra.
Nico Rosberg undirstrikaði styrkleika Williamsliðsins með þriðja besta tímanum og næstir honum urðu Heikki Kovalainen hjá McLaren og Mark Webber á Red Bull.
Nelson Piquet ók ögn hraðar en liðsfélagi hans hjá Renault, Fernando Alonso. Kimi Räikkönen á Ferrari setti níunda besta tíma dagsins og Lewis Hamilton hjá McLaren þann tíunda besta, en hann ók hraðast í gær og fyrradag.
Giancarlo Fisichella hélt uppi öflugri frammistöðu hins nýja bíls Force India með 12. besta tímanum. Var hann næstur á undan Felipe Massa sem sinnti mótorprófunum í dag.
Hondaþórarnir Jenson Button og Alex Wurz settu lökustu tíma dagsins. Honda verður við einkaprófanir í Jerez á Spáni í næstu viku og prófar þar nýjar straumfræðilegar úrlausnir í yfirbyggingu bílsins.
Niðurstaða akstursins í dag varð annars sem hér segir:
Röð | Ökuþór | Bíll | Tími | Hri. |
---|---|---|---|---|
1. | Trulli | Toyota | 1:20.801 | 83 |
2. | Coulthard | Red Bull | 1:21.258 | 76 |
3. | Rosberg | Williams | 1:21.293 | 77 |
4. | Kovalainen | McLaren | 1:21.309 | 87 |
5. | Webber | Red Bull | 1:21.368 | 91 |
6. | Piquet | Renault | 1:21.443 | 114 |
7. | Alonso | Renault | 1:21.454 | 128 |
8. | Nakajima | Williams | 1:21.796 | 124 |
9. | Räikkönen | Ferrari | 1:21.933 | 80 |
10. | Hamilton | McLaren | 1:22.011 | 88 |
11. | Glock | Toyota | 1:22.155 | 49 |
12. | Fisichella | Force India | 1:22.233 | 90 |
13. | Massa | Ferrari | 1:22.286 | 49 |
14. | Kubica | BMW | 1:22.299 | 93 |
15. | Bourdais | Toro Rosso | 1:22.465 | 79 |
16. | Sutil | Force India | 1:22.521 | 97 |
17. | Heidfeld | BMW | 1:22.624 | 61 |
18. | Wurz | Honda | 1:24.154 | 82 |
19. | Button | Honda | 1:24.275 | 73 |