Lewis Hamilton hjá McLaren er því ósammála að Ferrariliðið sé sigurstranglegast í keppninni um heimsmeistaratitla formúlunnar í ár en vertíðin hefst í Melbourne í Ástralíu í næstu viku.
Hamilton segir að silfurörvar McLaren muni hafa í fullu tré við skarlatsrauðu keppnisfákana frá Maranello á Ítalíu.
„Ferrari var þremur eða fjórum tíundu úr sekúndu hraðskreiðari í byrjun í fyrra. Bíllinn þeirra er einnig mjög góður í ár en við stöndum þeim jafnfætis núna,“ sagði Hamilton við blaðamenn er fylgdust með honum æfa sig í verksmiðju McLaren í Englandi í gær.
Hann bætti við að þegar toppliðin tvö hafi mæst á lokaæfingunum fyrir vertíðina í Barcelona í síðustu viku hafi niðurstaðan verið sú að forskot sem Ferrari virtist hafa í byrjun ársins vera úr sögunni. McLarenbílarnir hafi dregið Ferrarifákana uppi.
„Mér þótti það skrítið að þeir voru ekki viðstaddir bílprófanir með öðrum liðum nokkrum sinnum. Og ég held að æfingarnar í Barcelona hafi verið mjög réttmætur mælikvarði á stöðuna,“ sagði Hamilton.
Hann segir að keppnin í ár verði mun jafnari en í fyrra og vísar því á bug að á honum sé meiri pressa í ár vegna skjóts frama í fyrra. „Kannski er á mér meiri pressa en mér finnst hún í raun minni en í fyrra. Þá þurfti ég svo mikið að sanna mig. Jafnvel innan liðsins veltu menn því fyrir sér hvort ég myndi spjara mig í keppni þótt æfingar gengju vel. Í ár er þetta auðveldara að þessu leyti, menn þekkja hvað ég get og ég er ekki að leggja út í neina óvissu,“ segir Hamilton.