Bílskúr McLaren ekki aftast

Mótorheimili McLaren er engin smásmíð. Hér er það í Spa …
Mótorheimili McLaren er engin smásmíð. Hér er það í Spa í Belgíu í fyrra. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Þótt bílar McLarenliðsins verði með númerin 22 og 23 á trjónunni í samræmi við niðurstöður njósnamálsins í fyrra losnar liðið við að þurfa notast við bílskúrinn innst í bílskúrareininni.

McLaren var svipt öllum stigum í keppni bílsmiða í fyrra vegna njósnamálsins. Þar með taldist liðið hafa orðið neðst í keppninni en ekki efst og hefði átt að óbreyttu að þurfa brúka innsta bílskúrinn.

Hjá því kemst liðið og mun það vera fyrir tilstilli Bernie Ecclestone, alráðs formúlu-1. Hann mun hafa fengið önnur lið á sitt band og niðurstaðan er sú að McLaren fær bílskúr númer fimm í Melbourne, milli Williams og Red Bull.

Er liðið öllu nær toppliðunum þar en í 11. bílskúrnum.  

Engin nákvæm skýring er á þessari ákvörðun eða forsendum hennar. Talið er þó að þar eigi hlut að máli hið mikla mótorheimili McLaren sem kemst ekki fyrir innst á athafnasvæði liðanna að baki bílskúrunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert