Head vill bestu bílana aftast á rásmarkið

Frá keppni í Melbourne í fyrra. Giancarlo Fisichella á Renault …
Frá keppni í Melbourne í fyrra. Giancarlo Fisichella á Renault á undan Nico Rosberg hjá Williams. mbl.is/renaultf1

Patrick Head, annar eigandi Williamsliðsins, segir að formúlumót geti orðið leiðinleg á að horfa og leggur til að fjöri verði hleypt í keppnina með því að láta hraðskreiðasta bílinn hefja keppni aftast á rásmarki en þann hægasta fremst.

„Ég vildi sjá rásröðinni snúið við eftir stöðunni í stigakeppninni. Allir stæðu jafnt að vígi og besti ökumaðurinn myndi eftir sem áður vinna titilinn,“ sagði Head við íþróttadeild BBC.

Head hefur verið viðriðinn formúlu-1 í rúma þrjá áratugi. Hann býst við að hugmynd sín falli í grýttan jarðveg á þeim vettvangi. En hann segir að þær tillögur sem nú séu á borðum liðanna og ætlað er að stuðla að meiri framúrakstri séu ekki líklegar til að skila árangri.

Hvetur Head því Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) til að sýna meiri dirfsku í þessum efnum. Hann segir það rökrétt að framúrakstur eigi sér ekki stað ef fljótustu bílarnir byrja fremstir á rásmarki og þeir hægustu aftast.

Ýmsar leiðir sem farnar hafa verið á síðustu árum hafa ekki leitt til auksins framúraksturs.  Á næsta ári koma til framkvæmda aðgerðir sem eiga að krydda upp á keppnina. Meðal annars mega ökuþórar þá ýta á hnapp og virkja sérstakan aflauka í nokkrar sekúndur til að reyna vinna sæti.

Einnig verður hönnun bílanna breytt svo bíll á eftir komist nær þeim sem á undan fer. Head hefur ekki mikla trú á því að þessar ráðstafanir skili miklu.

Head finnst tilþrif mættu vera meiri í formúlunni.
Head finnst tilþrif mættu vera meiri í formúlunni. reuters
Vegna iðukasta eiga bílar erfitt með að ná þeim næsta …
Vegna iðukasta eiga bílar erfitt með að ná þeim næsta á undan. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert