Kimi Räikkönen hjá Ferrari segir að Fernando Alonso eigi enga möguleika í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra í ár þar sem Renaultbíll hans sé ekki nógu hraðskreiður.
Alonso var sjaldnast í efstu sætum hvað hraða varðar við bílprófanir í febrúar, en Renault freistar þess að ná sér upp úr þeim öldudal sem liðið var í fyrra.
Jafnan hefur Alonso vantað um sekúndu til að komast upp að ökumönnum Ferrari og McLaren. Það er ástæða þess að Räikkönen telur hann ekki keppa um heimsmeistaratitil ökuþóra í ár.
„Fernando er fínn ökumaður, en möguleikar hans ráðast af því hversu vel gengur að þróa Renaultbílinn. Miðað við hans eigin yfirlýsingar virðist hann skorta hraða,“ sagði heimsmeistarinn.
Liðsfélagi hans Felipe Massa tekur undir með honum og lítur ekki á Alonso sem keppinaut í slagnum um titil ökuþóra. „Helstu keppinautar mínir verða Kimi og [Lewis] Hamilton,“ sagði hann.