Fernando Alonso hvatti Renaultliðið til dáða eftir að hann lauk ástralska kappakstrinum í fjórða sæti. Vill hann að liðið leggi áfram hart að sér við að bæta bílinn.
Alonso varð í aðeins tólfta sæti í tímatökunum og segir fjórða sætið mikilvæga hvatningu fyrir lið sitt. Til þess að geta keppt við toppliðinn þurfi hins vegar að bæta hraða Renaultsins.
„Þetta var mjög undarlegur kappakstur, heilmikið um framúrakstur, óhöpp og bilanir hrjáðu marga. Okkur tókst að notfæra öll tækifærin sem buðust í dag og ljúka fyrsta móti ársins með góðum árangri, sem örvar liðið og gefur okkur aukið sjálfstraust inn í vertíðina.
Við þurfum hins vegar að halda áfram að bæta getu okkar í tímatökum og keppnishraða bílsins. Árangurinn í dag er okkur mjög mikilvægur,“ sagði heimsmeistarinn fyrrverandi.
Liðsfélagi hans Nelson Piquet tókst ekki upp í sínum jómfrúarkappakstri í formúlu-1. Hann varð að hætta keppni eftir 31 hring vegna skemmda á bílnum er ekið var aftan á hann í upphafi kappakstursins.
„Auðvitað er ég svekktur en ég lærði heilmikið um helgina og get ekki beðið eftir mótinu í Malasíu um næstu helgi. Vonandi næ ég betri úrslitum þar,“ sagði Piquet.