Lewis Hamilton segir að sigurinn í Melbourne sé sá besti á ferlinum sem hófst þar í borg fyrir ári. Hann hóf keppni á ráspól og var aldrei ógnað. Aðeins sjö bílar af 22 komust alla leið í endamark.
Sigurinn er sá fimmti á ferli Hamiltons. McLarenstjórinn Ron Dennis sagði hann hafa ekið fullkomlega við erfiðar aðstæður, en þrisvar var öryggisbíll sendur út í brautina vegna óhappa.
„Gallalaus akstur, það er aginn sem gerir hann svo góðan,“ sagði Dennis.
„Þessi sigur finnst mér betri en allir aðrir því ég hef bætt mig á mörgum sviðum. Ég setti mér ýmis markmið fyrir vertíðina og setti þannig þrýsting á mig sjálfur.
Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið fullkominn sigur því enn get ég bætt margt. Með tilliti til hvernig ég stýrði nýtingu dekkjanna, stjórnaði hraðanum, hvernig sjálfstraustið var hvað mér leið þægilega í bílnum, þá er þetta besti kappakstur minn til þessa,“ sagði Hamilton.