Þrátt fyrir eina verstu byrjun á keppnistímabili frá 2002 bar liðsstjórinn Stefano Domenicali sig vel eftir kappaksturinn í Melbourne. Hann sagði að liðið héldi haus og taka því með ró þótt hvorugur ökumanna þess hafi komist í mark.
Vélarbilun felldi bæði Kimi Räikkönen og Felipe Massa úr leik í dag en á sama tíma drottnuðu keppinautarnir hjá McLaren kappaksturinn. Þrátt fyrir brottfallið vann Räikkönen eitt stig er árangur Rubens Barrichello var strikaður út.
Þrátt fyrir slaka uppskeru segir Domenicali nauðsynlegt að lið hans haldi rónni og greini vandamálin í þeim tilgangi að geta látið til sín taka í næsta móti, Í Malasíu eftir viku.
„Úrslitin segja sína sögu, skelfileg helgi því miður. Ekkert gekk samkvæmt áætlun og þetta því erfiðir dagar. En ef þið minnist 2006 þá fór sú vertíð af stað með svipuðum hætti, tveimur brottföllum, en okkur tókst að draga keppinautana aftur uppi.
„Við vorum engir afburðamenn fyrir kappaksturinn og við erum engir bjánar að honum loknum. Við þurfum að skoða niður í kjölinn hvað gerðist. Vitaskuld er okkur áfram um að öðlast skilning á endingarvandanum. Tvær vélarbilanir, það er stærsti vandinn.
En við þurfum að halda rónni og einbeitingu. Megum ekki láta tilfinningarnar ná tökum á okkur núna því það er mjög auðvelt að verða þeim að bráð. Við þurfum að sýna skynsemi,“ sagði Domenicali liðsstjóri við blaðamenn að móti loknu.
Ferrari upplifði fyrsta mót fyrir tveimur árum með sama hætti og nú, er báðir bílarnir féllu úr leik í fyrsta móti. Domenicali játaði að það hefði komið liði hans í opna skjöldu að bílarnir skyldu ekki endast kappaksturinn út.
„Það kom á óvart eftir alla kílómetrana sem við höfum lagt að baki í vetur. Við þurfum að finna nákvæmlega út hvað gerðist,“ bætti hann við.